Viðskipti innlent

Íbúðalán bankanna ekki meiri síðan í fyrra

Landsbanki Íslands.
Landsbanki Íslands.

Ný íbúðalán bankanna námu um 5,5 milljörðum króna í maí. Á sama tíma lánaði Íbúðalánasjóður 6,0 milljarða krónur til íbúðarkaupa. Útlán bankana hafa aukist jafnt og þétt á síðustu mánuðum og hafa ekki verið meiri síðan í maí í fyrra.

Greiningardeild Landsbankans bendir á það í Vegvísi sínum í dag að samtala íbúðarlána banka og Íbúðarlánasjóðs hafi heldur ekki verið hærri síðan í maí á síðasta ári. Til viðbótar komi lán í erlendum gjaldmiðli og fasteignalán önnur en íbúðalán á bestu kjörum, en upplýsingar um þessi lán vanti í tölurnar sem og upplýsingar um lán lífeyrissjóðanna til íbúðarkaupa.

Deildin segir að gert sé ráð fyrir því að heildarútlán Íbúðalánasjóðs aukist töluvert milli ára og fari jafnvel fram úr áætlunum. Niðurstöður úr sjötta útboði íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs á árinu liggja fyrir á morgun. Megi gera ráð fyrir því að að miðað við markaðsvexti í dag og óbreytta aðferð við vaxtaákvörðun muni sjóðurinn hækka vexti um 0,15 prósent í kjölfar útboðsins, að sögn greiningardeildar Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×