Viðskipti innlent

Stýrivextir verða óbreyttir

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Mynd/Heiða

Seðlabankinn hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,30 prósentum, sem er í takt við væntingar. Bankinn birtir rökstuðning sinn fyrir ákvörðuninni í Peningamálum, sem kemur út klukkan 11 í dag.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um stýrivexti verður tilkynnt fimmtudaginn 6. september næstkomandi.

Fyrri framsetning stýrivaxta hljóðaði upp á 14,25 prósent, en niðurstaðan er sú sama því nú eru birtir nafnvextir í stað ávöxtunar á ári áður.

Greinendur efnahagsmála búast við allhörðum tóni frá bankanum vegna vísbendinga um aukna einkaneyslu á vordögum auk þess sem velta á fasteignamarkaði hefur verið heldur meiri en bankinn gerði ráð fyrir.

Í Markaðnum á miðvikudag kemur fram í máli Ásgeirs Jónssonar forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings að 80 prósenta þak á útlán Íbúðalánasjóðs og væntur niðurskurður í aflaheimildum samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar hafi að líkindum ekki áhrif á vaxtaákvarðanir bankans fyrsta kastið, en þensluhemjandi áhrif aðgerðanna gætu þó orðið til þess að vextir lækki hraðar eftir að vaxtalækkunarferli bankans hefst. Greinendur spá því flestir að það gæti orðið í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×