Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan yfir 8.000 stig

Frá fundi Exista. Gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um rúm fimm prósent í Kauphöllinni í dag.
Frá fundi Exista. Gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um rúm fimm prósent í Kauphöllinni í dag.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað nokkuð í morgun í takt við hækkanir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og fór yfir 8.000 stig um hádegisbil. Vísitalan fór undir 8.000 stig í niðursveiflu á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í síðustu viku. Vísitalan hefur hækkað um tæp þrjú prósent í morgun og stendur í 8.026 stigum. Gengi bréfa í Exista hefur leitt hækkunina í Kauphöllinni það sem af er degi en gengið hefur hækkað um rúm fimm prósent.

Hlutabréfavísitölur í öðrum löndum hafa sömuleiðis hækkað nokkuð í dag. Þannig hefur FTSE-100 vísitalan í Bretlandi hækkað um tæpt prósent, hin þýska Dax-vísitala um 0,40 prósent og franska Cac-40 vísitalan um 1,20 prósent. Þá hefur C20-vísitalan í Kaupmannahöfn í Danmörku farið upp um 2,70 prósent en vísitalan í Ósló í Noregi hefur hækkað um 1,71 prósent.

Gengi bréfa í fjármálafyrirtækjum, að gengi færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum undanskildu, hefur hækkað mest í Kauphöllinni en gengi þeirra lækkaði talsvert í niðursveiflunni í síðustu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×