Viðskipti innlent

Fjör í krónubréfaútgáfunni

Greiningardeild Glitnis segir mikið fjör vera hlaupið í krónubréfaútgáfu. Deildin segir stóra gjalddaga krónubréfa framundan og því von á mikilli spurn eftir nýjum bréfum ef fjárfestar hyggjast viðhalda fjárfestingu sinni í íslenskum vöxtum.

Alþjóðabankinn gaf í gær út krónubréf fyrir þrjá milljarða króna með gjalddaga árið 2009. Þá hafi verið tilkynnt um tvær útgáfur í dag. Þýski bankinn KfW ætli að gefa út krónubréf fyrir fimm milljarða að nafnvirði með gjalddaga eftir tvö ár auk þess sem Eurofima, fjármögnunarsjóður evrópskra járnbrautafélaga, gefi út krónubréf fyrir fjóra milljarða að nafnvirði með gjalddaga í nóvember á næsta ári. TD Securities eru umsjónaraðilar beggja útgáfa dagsins, en þeir hafa verið atkvæðamiklir í útgáfu slíkra skuldabréfa, bæði í íslenskri krónu og öðrum hávaxtamyntum, að sögn greiningardeildar Glitnis, sem bætir við að krónubréfaútgáfan í ágúst nemi 55 milljörðum króna.

„Næstu dagar munu skera úr um hvort veruleg breyting verður á fjárfestingu útlendinga í krónubréfum í kjölfar gjalddaganna í september. Nokkurn tíma tekur að ganga frá þeim útgáfum sem tilkynntar eru á hverjum tíma, og því líklegt að vilji menn gefa út krónubréf sem duga til framlengingar á næstu gjalddögum verði þau bréf að líta dagsins ljós í þessari viku eða hinni næstu. Sú þróun mun svo aftur ráðast af áhættusækni þeirra erlendu fjárfesta sem keypt hafa krónubréf undanfarin misseri," segir greiningardeild Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×