Íslenski boltinn

Eysteinn: Þvílíkur léttir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Sandgerði skrifar
Eysteinn Pétur fagnar hér með félögum sínum í Sandgerði í kvöld.
Eysteinn Pétur fagnar hér með félögum sínum í Sandgerði í kvöld. Mynd/E. Stefán
Eysteini Pétri Lárussyni, fyrirliða Þróttar, var mikið létt í leikslok í Sandgerði í kvöld. Þá komst Þróttur upp í efstu deild eftir 4-0 sigur á heimamönnum í Reyni.

„Þetta er þvílíkur léttir eftir klúður síðustu þriggja leikja. Það var mikið í húfi fyrir strákana í kvöld og félagið líka. Ef ekki nú, hvenær þá?"

Hann sagði að þó að Þróttur hafi ekki unnið deildina hafi það ekki verið aðalmarkmiðið. „Það var númer eitt, tvö og þrjú að komast upp. Fyrir þremur umferðum horfðum við í það að vinna deildina en það snerist í höndunum hjá okkur. En sumarið hefur engu að síður verið frábært."

Eysteinn þakkar árangrinum því hversu breiðan hóp Þróttur er með. „Það hefur alltaf komið sterkur maður inn þegar einhver skakkaföll hafa orðið. Það hefur verið lykillinn að þessu hjá okkur."

Í fyrsta sinn á Íslandi var spilað í tólf liða deild í 1. deildinni í sumar og segist Eysteinn hlakka til þess á næsta ári þegar liðin verða einnig tólf í efstu deild.

„Það verða fleiri leikir og færri æfingar. Það er það sem allir fótboltamenn vilja. Ég hlakka mikið til."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×