Ábyrgð og vald Þorsteinn Pálsson skrifar 21. janúar 2008 06:00 Svokölluð Sundabraut er stærsta verkefni sem við blasir í samgöngumálum. Ekkert bendir til að efasemdir séu um að verkefnið sé aðkallandi. En pólitískar umræður um verkefnið sýna að frá sjónarhóli góðrar stjórnsýslu er ákvarðanaferillinn í skötulíki. Þess er skemmst að minnast að fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var Sundabrautin stærsta kosningamálið. Ekki vegna þess að um hana væri deilt. Þvert á móti. Hver flokkur um sig lofaði að koma verkinu í framkvæmd á undan hinum. Það sérkennilega við þennan málflutning var fyrst og fremst það að framkvæmdin kemur borgarsjóði ekkert við. Hún er alfarið kostuð af ríkissjóði. Með öðrum orðum: Stærsta sameiginlega kosningamálið í borgarstjórnarkosningunum var að lofa peningum úr ríkissjóði. Síðan kom stjórn Faxaflóahafna og bauðst til að framkvæma verkið án útboðs og framhjá bókhaldi ríkissjóðs. Talsmenn tveggja stjórnmálaflokka fóru aukheldur í hnútukast út af eignarrétti á þeirri vitlausu hugmynd. Borgaryfirvöld eru að sönnu ábyrg fyrir þeim þætti málsins sem snýr að borgarskipulaginu. En í þessu tilviki eins og mörgum öðrum er brotalöm í skipulagi stjórnsýslunnar þegar skipulagsvald og fjármálaleg ábyrgð framkvæmda fara ekki saman. Vegagerð ríkisins hefur nú gert opinberlega grein fyrir málinu af sinni hálfu. Um er að ræða tvo kosti. Mismunurinn er hvorki meiri né minni en níu milljarðar króna. Vegagerðin telur þar að auki ódýrari kostinn tæknilega betri lausn á þeim umferðarvanda sem brautin á að leysa. Borgaryfirvöld kjósa dýrari kostinn enda yrði sennilega um hann meiri friður í nærliggjandi hverfum. Þetta er um margt skiljanleg afstaða. Vegagerðin bendir hins vegar á að fyrir mismuninn megi leggja hluta af Miklubraut og Kringlumýrarbraut í stokk. Það yrði mikil umhverfisbót fyrir nærliggjandi hverfi. Það er líka gilt sjónarmið. Flokkarnir í borgarstjórn vilja hins vegar ekki að málið sé lagt þannig fyrir að borgarbúar í heild taki taki afstöðu til þess hvernig má fá sem mest fyrir peningana. Ástæðan er sú að peningar í þessu tilviki koma borgarsjóði ekki við. Það er ókeypis fyrir borgarstjórn að bjóða upp á dýrustu lausnirnar. Vel má vera að yfirveguð og ábyrg umræða leiði til þeirrar niðurstöðu að dýrari kosturinn sé skynsamlegri. Á þessu stigi skal ekkert um það fullyrt. Á endanum eru það íbúar í Reykjavík sem borga stærstan hluta kostnaðarins. En það eru þingmennirnir en ekki borgarfulltrúarnir sem eru ábyrgir fyrir skattheimtunni sem þar býr að baki. Í því ljósi er óhjákvæmilegt að fjárveitingavaldið geri grein fyrir afstöðu sinni og verji fyrir kjósendum. Það getur ekki vikið sér undan umræðu um uppgjör milli þessara kosta með því einfalda ráði að leita skjóls hjá þeim sem bera fram kröfur án þess að bera fjármálalega ábyrgð. Þetta þýðir að velji samgönguráðherra og þingmenn dýrari kostinn þurfa þeir að rökstyðja sérstaklega gagnvart þeim Reykvíkingum sem fyrir þá sök verða af eða þurfa að bíða eftir umhverfisumbótum í vegamálum hvers vegna það ráð er betra. Mestu máli skiptir að lyfta umræðu og ákvarðanaferli slíkrar stórframkvæmdar á hærra plan en verið hefur hver sem niðurstaðan verður. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Halldór 28.12.2024 Halldór Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun VII. Aðförin að Ólafi Jóhannessyni Hafþór S. Ciesielski Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Svokölluð Sundabraut er stærsta verkefni sem við blasir í samgöngumálum. Ekkert bendir til að efasemdir séu um að verkefnið sé aðkallandi. En pólitískar umræður um verkefnið sýna að frá sjónarhóli góðrar stjórnsýslu er ákvarðanaferillinn í skötulíki. Þess er skemmst að minnast að fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var Sundabrautin stærsta kosningamálið. Ekki vegna þess að um hana væri deilt. Þvert á móti. Hver flokkur um sig lofaði að koma verkinu í framkvæmd á undan hinum. Það sérkennilega við þennan málflutning var fyrst og fremst það að framkvæmdin kemur borgarsjóði ekkert við. Hún er alfarið kostuð af ríkissjóði. Með öðrum orðum: Stærsta sameiginlega kosningamálið í borgarstjórnarkosningunum var að lofa peningum úr ríkissjóði. Síðan kom stjórn Faxaflóahafna og bauðst til að framkvæma verkið án útboðs og framhjá bókhaldi ríkissjóðs. Talsmenn tveggja stjórnmálaflokka fóru aukheldur í hnútukast út af eignarrétti á þeirri vitlausu hugmynd. Borgaryfirvöld eru að sönnu ábyrg fyrir þeim þætti málsins sem snýr að borgarskipulaginu. En í þessu tilviki eins og mörgum öðrum er brotalöm í skipulagi stjórnsýslunnar þegar skipulagsvald og fjármálaleg ábyrgð framkvæmda fara ekki saman. Vegagerð ríkisins hefur nú gert opinberlega grein fyrir málinu af sinni hálfu. Um er að ræða tvo kosti. Mismunurinn er hvorki meiri né minni en níu milljarðar króna. Vegagerðin telur þar að auki ódýrari kostinn tæknilega betri lausn á þeim umferðarvanda sem brautin á að leysa. Borgaryfirvöld kjósa dýrari kostinn enda yrði sennilega um hann meiri friður í nærliggjandi hverfum. Þetta er um margt skiljanleg afstaða. Vegagerðin bendir hins vegar á að fyrir mismuninn megi leggja hluta af Miklubraut og Kringlumýrarbraut í stokk. Það yrði mikil umhverfisbót fyrir nærliggjandi hverfi. Það er líka gilt sjónarmið. Flokkarnir í borgarstjórn vilja hins vegar ekki að málið sé lagt þannig fyrir að borgarbúar í heild taki taki afstöðu til þess hvernig má fá sem mest fyrir peningana. Ástæðan er sú að peningar í þessu tilviki koma borgarsjóði ekki við. Það er ókeypis fyrir borgarstjórn að bjóða upp á dýrustu lausnirnar. Vel má vera að yfirveguð og ábyrg umræða leiði til þeirrar niðurstöðu að dýrari kosturinn sé skynsamlegri. Á þessu stigi skal ekkert um það fullyrt. Á endanum eru það íbúar í Reykjavík sem borga stærstan hluta kostnaðarins. En það eru þingmennirnir en ekki borgarfulltrúarnir sem eru ábyrgir fyrir skattheimtunni sem þar býr að baki. Í því ljósi er óhjákvæmilegt að fjárveitingavaldið geri grein fyrir afstöðu sinni og verji fyrir kjósendum. Það getur ekki vikið sér undan umræðu um uppgjör milli þessara kosta með því einfalda ráði að leita skjóls hjá þeim sem bera fram kröfur án þess að bera fjármálalega ábyrgð. Þetta þýðir að velji samgönguráðherra og þingmenn dýrari kostinn þurfa þeir að rökstyðja sérstaklega gagnvart þeim Reykvíkingum sem fyrir þá sök verða af eða þurfa að bíða eftir umhverfisumbótum í vegamálum hvers vegna það ráð er betra. Mestu máli skiptir að lyfta umræðu og ákvarðanaferli slíkrar stórframkvæmdar á hærra plan en verið hefur hver sem niðurstaðan verður.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun