Körfubolti

Naumur sigur Grindavíkur á Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Grindavíkur og Keflavíkur á síðasta keppnistímabili.
Úr leik Grindavíkur og Keflavíkur á síðasta keppnistímabili.

Grindavík vann í kvöld eins stigs sigur á Keflavík eftir að hafa verið með mikla forystu í byrjun leiksins. Þrír leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í kvöld.

KR vann sigur á Stjörnunni, 90-81, og þá vann FSu lið Blika með 23 stiga mun, 93-70.

Sem fyrr segir byrjuðu Grindvíkingar miklu mun betur í kvöld og voru með væna forystu eftir fyrsta leikhluta, 23-8. Sá munur minnkaði talsvert í öðrum leikhluta en þá var staðan orðin 39-36, Grindvíkingum í vil.

Keflvíkingar komust yfir í þriðja leikhluta en Grindvíkingar tóku fljótt frumkvæðið aftur og héldu út allt til loka. Gunnar Stefánsson hefði getað jafnað metin fyrir Keflavík með vítakasti í blálokin en hitti ekki.

Páll Kristinsson fór þá á vítalínuna fyrir Grindavík en misnotaði bæði sín skot. En tíminn var of naumur fyrir Keflvíkinga til að ná almennulegu lokaskoti og varð niðurstaðan 80-79 sigur Grindavíkur.

Brenton Birmingham skoraði flest stig fyrir Grindavík eða nítján talsins en hann tók þar að auki þrettán fráköst. Páll Kristinsson og Páll Axel Vilhjálmsson voru með sautján stig hvor.

Hjá Keflavík var Sigurður Þorsteinsson stigahæstur með 21 stig. Sverrir Þór Sverrisson skoraði nítján og Gunnar sautján.

Sigur FSu var nokkuð öruggur en staðan í hálfleik var 45-42, FSu í vil en liðið tók svo öll völd í síðari hálfleik.

Sævar Sigurmundsson var stigahæstur í liði FSu með 23 stig, Björgvin Valentínusson skoraði 22 og Vésteinn Sveinsson átján. Hjá Breiðabliki var Nemanja Sovic stigahæstur með 20 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst.

Grindavík er í öðru sæti deildarinnar með tólf stig, tveimur stigum á eftir toppliði KR. Keflavík er svo í þriðja sæti með átta stig. FSu er í sjöunda sæti með sex stig, rétt eins og Breiðablik sem er í níunda sæti. Stjarnan er svo í tíunda sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×