Körfubolti

Fyrstir í NBA í níu ár til að vinna tíu fyrstu leiki sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donovan Mitchell og félagar í Cleveland Cavaliers hafa verið óstöðvandi í upphafi NBA tímabilsins.
Donovan Mitchell og félagar í Cleveland Cavaliers hafa verið óstöðvandi í upphafi NBA tímabilsins. Getty/Jason Miller

Það virðist enginn geta stoppað lið Cleveland Cavaliers í byrjun NBA tímabilsins í körfubolta.

Cleveland hefur unnið tíu fyrstu leiki sína og það hefur engu liði tekist í níu ár.

Cavaliers menn unnu nítján stiga stórsigur á Golden State Warriors í nótt, 136-117.

Síðasta liðið til að vinna tíu fyrstu leiki sína í NBA var einmitt lið Golden State Warriors frá 2015-16. Það lið endaði á því að vinna 73 af 82 leikjum sínum og setja met yfir besta árangur sögunnar.

„10-0 er eitthvað. Þetta er eins konar töfratala. Ég hafði smá áhyggjur í kvöld af því Warriors er meistaralið. Það kom mér á óvart hvernig þeir komu til leiks og hversu hungraðir við vorum. 10-0 er mjög sérstakt fyrir okkar lið,“ sagði Kenny Atkinson, þjálfari Cleveland Cavaliers.

Darius Garland skoraði 27 stig fyrir Cleveland og Evan Mobley var með 23 stig.

Cleveland er að skora mikið í sínum leikjum og setti met með því að vera fyrsta liðið til að bæði vinna fyrstu tíu leiki sína og skora í þeim öllum 110 stig eða meira.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×