Körfubolti

Tindastóll og Þór grípa til aðgerða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cedric Isom, leikmaður Þórs.
Cedric Isom, leikmaður Þórs.

Körfuknattleiksdeildir Tindastóls og Þórs gripu bæði til aðgerða vegna efnahagskreppunnar í gærkvöldi.

Þórsarar ákváðu í gærkvöldi að segja upp samningi sínum við Milorad Damjanac en tveir erlendir leikmenn leika með félaginu til viðbótar. Þetta eru þeir Cedric Isom og Roman Moniak en stjórnin ákvað að endurskoða samningana við þá. Framtíð þeirra er því óráðin en Hrafn Kristjánsson, þjálfari Þórs, hefur sagt við Vísi að ofurkapp verði lagt á að halda Isom.

Þá hefur Tindastóll ákveðið að semja ekki við Bandaríkjamanninn Michael Bonaparter sem var til reynslu hjá félaginu. Líkt og hjá Þór eru tveir erlendir leikmenn til viðbótar á mála hjá félaginu og er framtíð þeirra óráðin.

Félagið hefur hins vegar komist að samkomulagi við Rafael Silva, þjálfara hjá unglingaflokkum Tindastóls, að hámarka laun hans í íslenskum krónum og er því framtíð hans tryggð.

„Þessi niðurstaða sýnir hversu mikill öðlingspiltur Rafael er og hvernig hann lítur á starf sitt fyrir körfuknattleiksdeildina," segir á heimasíðu Tindastóls.

Öll félög í Iceland Express-deild karla hafa því gripið til aðgerða í ljósri breytta aðstæðna nema FSu og KR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×