Körfubolti

Ég verð ekki í stuttbuxum á laugardaginn

Friðrik Ingi ætlar ekki að taka þátt í skotkeppninni á laugardaginn
Friðrik Ingi ætlar ekki að taka þátt í skotkeppninni á laugardaginn

Margar af bestu þriggja stiga skyttum Íslandssögunnar verða samankomnar á Ásvöllum á laugardaginn til að taka þátt í skotkeppninni í kring um Stjörnuleiki KKÍ.

Vísir hafði samband við Friðrik Inga Rúnarsson framkvæmdastjóra KKÍ og spurði hann m.a. hvort hann ætlaði sjálfur að taka þátt í keppninni.

"Það var ákveðið að taka inn í keppnina þá menn sem hafa skorað flestar þriggja stiga körfur af þeim sem eru hættir að spila og svo þeim sem hafa skorað flesta þrista í Iceland Express deildinni í vetur," útskýrði Friðrik þegar Vísir spurði hann út í tildrög keppninnar.

Á meðal keppenda verða stórskyttur dagsins í dag eins og Páll Axel Vilbergsson, Logi Gunnarsson, Jakob Sigurðarson og Jón Arnór Stefánsson.

Ekki eru síðri kappar mættir til leiks af eldri kynslóðinni, en þar má sjá nöfn eins og Guðjón Skúlason, Teit Örlygsson og Kristinn Friðriksson svo einhverjir séu nefndir.

"Þeir tóku allir mjög vel í að taka þátt í þessu og það er gaman að tengja þarna saman gamla og nýja tíma," sagði Friðrik.

Eina stórskyttu vantar þó á þennan lista, en það er framkvæmdastjórinn sjálfur. Hann gerði það gott í skotkeppnum í upphafi tíunda áratugarins.

"Já, ég vann þessa keppni nú einu sinni eða tvisvar og var einu sinni eða tvisvar í öðru sæti. Mig minnir að það hafi verið á árunum 1991 til ´93," sagði Friðrik.

En kom þá ekki til greina fyrir hann sjálfan að taka þátt?

"Ég var nú ekki með nógu marga skoraða þrista á ferlinum til þess og verð auðvitað að halda utan um hlutina þarna, en undir öðrum kringumstæðum hefði vissulega verið gaman að taka þátt. Ég get hinsvegar lofað því að ég verð ekki í stuttbuxunum á laugardaginn," sagði Friðrik léttur í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×