Körfubolti

Skallagrímur segir upp samningum erlendra leikmanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ken Webb, þjálfari Skallagríms.
Ken Webb, þjálfari Skallagríms. Mynd/E. Stefán

Stjórn körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur sagt upp samningum við erlenda leikmenn félagsins og á nú í viðræðum við Ken Webb, þjálfara.

ÍR var fyrsta félagið til að grípa til þessara aðgerða í ljósi efnahagsástandsins hér á landi. Breiðablik, Snæfell, Njarðvík og Stjarnan fylgdu í kjölfarið og nú hefur Skallagrímur bæst í hópinn.

„Það er búið að segja upp samningum þeirra Eric Bell og Serbans Djordo Djordic frá Serbíu. Djordic var á leið til landsins en ekkert verður að því að hann komi," sagði Pálmi Blængsson, gjaldkeri stjórnarinnar.

Bandaríkjamaðurinn Ken Webb er þjálfari Skallagríms og segir Pálmi að félagið eigi nú í viðræðum við hann um framhaldið.

„Við ætlum að reyna allt sem við getum til að halda honum enda þurfum við á þjálfara að halda. En til þess að það takist þurfum við á einhverju að halda frá honum," sagði Pálmi og átti þá við að Webb þyrfti að taka á sig launalækkun ef hann vildi halda áfram að þjálfa Skallagrím.

„Öll laun þessara manna eru greidd í dollurum sem er mjög dýr í dag. Auk þess eru styrktaraðilar ekki að skila sínu eins og áætlanir gerðu ráð fyrir."

Pálmi sagði að þremenningarnir hafi tekið þessum fregnum af miklu jafnaðargeði. „Þeir hafa fylgst með ástandinu og áttu von á þessu."

Snæfell þurfti að segja sínum þjálfara upp störfum af sömu ástæðu en Pálmi segir ómögulegt hvort leitað verði til leikmanna til að taka að sér þjálfun liðsins, eins og Snæfell gerði.

„Við ætlum fyrst og fremst að reyna að halda Ken en ef það tekst ekki verða aðrar leiðir skoðaðar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×