Handbolti

Ísland í fjórðungsúrslitin eftir dramatískt jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Snorri Steinn Guðjónsson tryggði Íslandi jafntefli gegn Dönum í dag og um leið sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking.

Vísir var með beina lýsingu frá leiknum sem má lesa hér að neðan.

Dómarar leiksins höfðu mikil áhrif á leikinn en þeir lögðu afar stranga línu strax í upphafi leiksins. Logi Geirsson fékk að líta rauða spjaldið í síðari hálfleik fyrir litlar sakir og leikmenn úr báðum liðum fengu mikið af brottvísunum.

En þessi stranga lína tryggði Íslandi stigið því Arnór Atlason náði að fiska víti þegar fjórar sekúndur voru eftir og Ísland marki undir. Snorri Steinn skoraði úr vítinu sem Danirnir mótmæltu kröftuglega. En dómgæslan bitnaði á heildina jafn mikið á báðum liðum og því jafntefli sanngjörn úrslit.

Útlitið var ekki bjart í fyrri hálfleik er Danir löbbuðu í gegnum íslensku vörnina hvað eftir annað. Markvarslan var líka lítil og gátu Danir komist í fimm marka forystu undir lok fyrri hálfleiks.

En þá sagði íslenska seiglan til sín og leikmenn náðu að minnka muninn í eitt mark í lok hálfleiksins og skora svo fyrstu tvö mörkin í þeim síðari. Eftir það skiptust liðin á að vera í forystunni. Ísland náði mest eins marks forystu og Danir tveggja.

Vörnin og þá sérstaklega markvarsla Hreiðars Guðmundsson var frábær í síðari hálfleik. Danir voru reyndar duglegir að láta sig detta og pirra íslensku varnarmennina sem þó náðu að halda haus og klára leikinn með mikilli sæmd.

Sóknin var ágæt allan leikinn og var jákvætt að átta leikmenn komust á blað í dag. Snorri Steinn átti mjög góðan leik en hvarf inn á milli. Guðjón Valur og Alexander voru síógnandi og Ólafur Stefánsson sýndi mikilvægi sitt með góðum mörkum þegar ekkert var að gerast í sókninni. Róbert Gunnarsson átti líka góðan dag eins og flestir í íslenska liðinu.

Næsti leikur er gegn Egyptalandi á aðfaranótt mánudags, klukkan 01.00. Egyptar eiga engan möguleika á sæti í fjórðungsúrslitunum en íslenskur sigur í þeim leik gulltryggir að liðið lendi ekki í fjórða sæti riðilsins og mæti þar með gríðarsterkum Frökkum í fjórðungsúrslitunum.

Tölfræði leiksins:

Ísland - Danmörk 32-32 (17-18)

Gangur leiksins: 0-2, 2-2, 4-4, 6-7, 8-7, 8-11, 10-14, 12-15, 14-18, (17-18), 19-18, 19-20, 22-21, 24-23, 24-25, 27-29, 30-31, 31-32, 32-32.

Mörk Íslands (skot):

Snorri Steinn Guðjónsson 8/4 (13/5)

Guðjón Valur Sigurðsson 6 (9)

Ólafur Stefánsson 5 (10)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 3 (3)

Róbert Gunnarsson 3 (3)

Alexander Petersson 3 (5)

Arnór Atlason 3 (6)

Sigfús Sigurðsson 1 (2)

Logi Geirsson (1)

Skotnýting: 32/53, 60%

Vítanýting: Skorað úr 4 af 5.

Varin skot:

Hreiðar Guðmundsson 15 (38/2, 39%, 45 mínútur)

Björgvin Páll Gústavsson 1 (10, 10%, 15 mínútur)

Mörk úr hraðaupphlaupum: 6 (Guðjón Valur 2, Alexander 2, Ásgeir Örn 1 og Sigfús 1).

Fiskuð víti: Snorri Steinn 3, Guðjón Valur 1 og Arnór 1.

Utan vallar: 12 mínútur.

Rautt: Logi Geirsson.

Markahæstir hjá Danmörku:

Jesper Nöddesbo 6 (6)

Kasper Söndergaard 5 (8)

Lasse Boesen 5 (10)

Bo Spellerberg 5/1 (10/1)

Varin skot:

Kasper Hvidt 17/1

14.15 Ísland - Danmörk 32-32

Vá. Þvílík dramatík. Arnór fiskaði víti þegar fjórar sekúndur voru eftir. Danir tjúlluðust alveg og þá sérstaklega Ulrik Wilbæk, þjálfari þeirra. Hann gjörsamlega missti sig.

Snorri Steinn steig á vítalínuna og skoraði af öryggi. Síðast hafði hann skotið í slá af vítalínunni. Þvílíkur léttir og Ísland er komið í fjórðungsúrslitin.

14.12 Ísland - Danmörk 31-32

Mikkel Hansen skorar úr ómögulegu færi á ögurstundu. Guðmundur tók leikhlé er 22 sekúndur eru eftir. Ísland verður - þeir bara verða - að skora úr þessari sókn og ná jafnteflinu.

14.09 Ísland - Danmörk 31-31

Ísland náði ekki að nýta sér yfirtöluna en náðu þó alltaf að svara marki Dana. Svo stal Alexander boltanum í vörninni og jafnaði metin úr hraðaupphlaupi. Tæp ein og hálf mínúta eftir og Danir eru með boltann.

14.06 Ísland - Danmörk 29-30

Alexander fékk opið færi og gat jafnað en Hvidt varði frábærlega frá honum. Hann er búinn að halda Dönum inn í þessum leik enda frábær markvörður. Ísland eru þó í yfirtölu nú þegar þrjár og hálf mínúta er eftir.

14.00 Ísland - Danmörk 27-29

Logi Geirsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir að stjaka við Dana í uppstökki. Strangt til tekið er það rautt spjald en snertingin var afar lítil. Rúmar sjö mínútur eftir og þetta gæti orðið erfitt.

13.50 Ísland - Danmörk 24-24

Ísland gat komist í tveggja marka forystu en Guðjón Valur lét verja frá sér í hraðaupphlaupi. Þá skoruðu Danir. Dómararnir eru annars búnir að reka tvo Íslendinga af velli á síðustu mínútum fyrir afar litlar sakir.

13.47 Ísland - Danmörk 24-23

Nú komu tvö íslensk mörk í röð eftir að Hreiðar varði glæsilega í markinu í nokkur skipti. Ísland hefur skorað tíu mörk gegn fimm frá Dönum síðan að staðan var 18-14 fyrir Dani í fyrri hálfleik.

13.42 Ísland - Danmörk 22-23

Danir fengu sitt fyrsta víti í leiknum og Hreiðar gerði sér lítið fyrir og varði frá Lars Christiansen. Róbert skoraði svo í næstu sókn og kom Íslandi yfir. Danir náðu hins vegar þá að skora tvö í röð.

13.40 Ísland - Danmörk 21-21

Það eru batamerki á varnarleik íslenska liðsins en Danir hafa þó enn frumkvæðið í leiknum. Ísland á þó góðan möguleika í þessum leik, svo mikið er víst.

13.35 Ísland - Danmörk 19-18

Snorri Steinn fiskar víti og skorar úr því sjálfur í fyrstu sókn Íslands í seinni hálfleik. Svo vinnur Ásgeir Örn boltann og skorar úr hraðaupphlaupi. Fimm íslensk mörk í röð.

13.23 Ísland - Danmörk 17-18 - hálfleikur

Það er hreint ótrúlegt að hugsa til þess að það sé ekki nema eins marks munur á liðunum. Danir voru í sókn og komust í opið færi þegar innan við tíu sekúndur voru eftir. Hreiðar varði hins vegar glæsilega og Guðjón Valur skoraði úr hraðaupphlaupi á lokasekúndunni. Frábær lokakafli á fyrri hálfleik og gefur vonandi gott veganesti í þann síðari.

Mörk Íslands (skot):

Guðjón Valur Sigurðsson 4 (6)

Snorri Steinn Guðjónsson 3/2 (5/2)

Ólafur Stefánsson 3 (6)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 (2)

Róbert Gunnarsson 2 (2)

Arnór Atlason 2 (5)

Sigfús Sigurðsson (1)

Logi Geirsson (2)

Varin skot:

Hreiðar Guðmundsson 4 (13, 31%, 15 mínútur)

Björgvin Páll Gústavsson 1 (10, 10%, 15 mínútur)

Markahæstir hjá Dönum:

Lasse Boesen 5

Jesper Nöddesbo 5

Varin skot:

Kasper Hvidt 10 (27/2, 37%)

13.21 Ísland - Danmörk 16-18

Ólafur Stefánsson skorar sitt þriðja mark í leiknum eftir að Danir klúðruðu sókn þar sem þeir hefðu getað komist í fimm marka mun. Guðjón Valur náði svo að stela boltanum í vörninni og skoraði úr hraðaupphlaupi.

13.18 Ísland - Danmörk 14-18

Íslenska vörnin er hreinlega eins og gatasigti. Það bara fer allt í gegn og svo inn. Kasper Hvidt er hins vegar dottinn í mikið stuð í danska markinu og varið níu skot til þessa. Íslensku markverðirnir hafa varið fjögur. Þetta lítur ekki vel út.

13.11 Ísland - Danmörk 12-14

Danir eru að fá að skora allt, allt of auðveld mörk. Íslenska vörnin þarf að vera mun grimmari og þá kemur markvarslan með. Kasper Hvidt hefur verið mjög góður fyrir aftan öfluga danska vörn. Danir eru þó ekki að stinga af.

13.05 Ísland - Danmörk 9-13

Danir hafa tekið íslensku vörnina í nefið undanfarnar mínútur og eru komnir fjórum mörkum yfir. Á sama tíma standa Danir vaktina í vörninni mjög vel og íslenska sóknin á í miklu basli. Þeir spila mjög framarlega í sínum varnarleik sem er erfitt fyrir Íslendingana.

13.01 Ísland - Danmörk 8-9

Nú skora Danir tvö í röð og Ingimundur er rekinn af velli. Það er hins vegar ekkert spes.

12.59 Ísland - Danmörk 8-7

Tvö íslensk mörk í röð og Björgvin Páll varði sitt fyrsta skot. Verður ekki betra.

12.54 Ísland - Danmörk 6-7

Þrisvar skoruðu Danir og komust yfir en alltaf svaraði Ísland jafn óðum, þar af Arnór tvisvar. Ísland vann svo boltann og skoraði úr hraðaupphlaupi og komst yfir. Danir skoruðu þá tvö í röð. Þvílíkur hraði í þessum leik. Nú þarf íslenska vörnin og markvarslan að komast í gang.

12.51 Ísland - Danmörk 2-3

Boesen hefur skorað fyrstu tvö mörk Dana í leiknum en Snorri Steinn skoraði fyrsta mark Íslands úr skyttustöðunni hægra megin. Hann fiskaði svo víti í næstu sókn og skoraði sjálfur úr því. Frábært að Snorri virðist upp á sitt besta í dag enda spilar hann í Danmörku og ætlar sér ekkert annað en sigur í dag.

Boesen skoraði svo þriðja mark Dana í næstu sókn.

12.46 Ísland - Danmörk 0-1

Leikurinn er hafinn og Danir skoruðu úr sinni fyrstu sókn í leiknum. Ólafur Stefánsson tók þá fast skot í fyrstu sókn Íslands sem hafnaði því miður í stönginni.

12.30

Góðan daginn og velkomin til leiks á Vísi þar sem við munum fylgjast með leik Íslands og Danmerkur á Ólympíuleikunum. Leikurinn hefst eftir stundarfjórðung.

Íslandi dugir jafntefli í dag til að tryggja sæti sitt í fjórðungsúrslitunum og væri gott að gera það til að liðið geti mætt afslappað til leiks gegn Egyptum í lokaleiknum á aðfaranótt mánudags. Leikurinn hefst klukkan eitt eftir miðnætti á sunnudagskvöldið.

Danir eru í dauðafæri til að redda þessum Ólympíuleikum með því að vinna Ísland í dag. Þá tryggja þeir sér sæti í fjórðungsúrslitunum. Það má ekki gleyma því að Danir eru ríkjandi Evrópumeistarar og hefur gengi liðsins til þessa valdið miklum vonbrigðum.






































































Fleiri fréttir

Sjá meira


×