Opnuð var yfirlitssýning á verkum myndbandslistakonunnar Steinu – Steinunnar Briem Bjarnadóttur Vasulka – í menningarmiðstöðinni Gerðubergi um síðustu helgi.
Steina er einn af frumherjum íslenskrar myndbandalistar. Hún er fædd í Reykjavík árið 1940 og lagði framan af stund á nám í fiðluleik. Nítján ára gömul fékk hún styrk til náms við Tónlistarháskólann í Prag, en þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum Woody Vasulka, vélaverkfræðingi og kvikmyndagerðarmanni. Steina starfaði um skeið sem fiðluleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands en fór síðan til New York með eiginmanni sínum. Þar kynntist hún, seint á sjöunda áratugnum, myndbandalistforminu sem hún hefur unnið að síðan.
Steina hefur farið vítt og breitt í rafrænni listsköpun sinni; gert myndbönd og innsetningar og nú á síðustu árum hefur hún framið gagnvirka gjörninga á opinberum stöðum þar sem að fiðluleikur hennar er notaður til að stjórna myndefni sem varpað er á stóra skjái. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1997 en þar var sýnt verk hennar Orka.
Sýningin í Gerðubergi stendur yfir til 2. nóvember. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.-