Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins og ritstjóri Kastljóss, segist ekki óttast hugsanlega málsókn Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, í kjölfar þess að einkasamtal Reynis og Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrverandi blaðamanns DV, var birt í Kastljósi fyrr í kvöld. Upptakan átti brýnt erindi til almennings, að mati Þórhalls.
„Ef honum finnst eðlilegt í stöðunni að kæra okkur þá er það hans mat og ég hef ekkert við það að athuga,“ segir Þórhallur og bætir við að Reyni hafi verið boðið að tjá sig um málið í þættinum, en það hafi hann ekki þegið.
Þórhallur segir að samtalið hafi átt brýnt erindi til almennings og því hafi að vel ígrunduðu máli verið tekin sú ákvörðun að ð birta upptökuna.
„Samtalið sýnir að valdamiklir einstaklingar geta beitt fjölmiðla þrýstingi sem hefur áhrif á fréttaflutninginn og það er mikilvægt að fólk átti sig á því hveru hættulegt það er,“ segir Þórhallur.
„Þetta sýnir hversu óeðlilegt það er að í fyrsta lagi að menn beiti þrýstingi í krafti fjármagns eða valda og í öðru lagi að fjölmiðillinn láti undan.“