Körfubolti

Sigurður velur íslenskt

Sigurður Ingimundarsson, þjálfari Íslandsmeistara Keflavíkur, hefur engar áhyggjur af því þó lið hans leiki án útlendinga í vetur. Hann segir brottför útlendinga í deildinni skapa færi fyrir íslenska leikmenn.

Sigurður er bjartsýnn að eðlisfari og í samtali við Vísi í dag sagði hann Keflvíkinga alltaf stefna á að vinna titla, annað væri skref aftur á bak.

Keflvíkingum var spáð þriðja sætinu í deildinni í vetur, en það er reyndar tveimur sætum ofar en meisturunum var spáð fyrir ári síðan.

Nokkrar breytingar hafa orðið á liði Keflavíkur og segja má að yngri menn fái aukna ábyrgð hjá Sigurði í vetur, en hann sagðist ánægður með þá þróun.

Við spurðum hann hvernig honum litist á þær miklu breytingar sem orðið hefðu á deildinni síðustu daga þegar flest liðin í deildinni skáru mikið niður í kreppunni.

"Út frá körfuboltalegu sjónarmiði leggst þetta vel í mig. Við Keflvíkingar vorum fljótir að nota tækifærið og gerast alíslenskir þegar þessi staða kom upp og ég held að sé kominn tími á það hjá öllum liðum. Ég var nokkuð hissa og vonsvikinn með það hve mörg lið ætla ekki að gera þetta," sagði Sigurður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×