Sigurlaug Ragnarsdóttir listfræðingur annast leiðsögn um útilistaverk í miðbænum í kvöld kl. 20 þegar lagt verður upp í áttundu kvöldgöngu Kvosarinnar sem menningarstofnanir Reykjavíkurborgar standa fyrir.
Gangan tekur um klukkustund en í henni mun Sigurlaug kynna ólíkar aðferðir við miðlun útilistaverka, gildi miðlunar og upplifun einstaklings á henni. Í göngunni verður lögð áhersla á að skoða útilistaverk á hugmyndafræðilegum grundvelli og draga þannig fram nýjar áherslur og nýja sýn auk þess að vekja upp spurningar um mikilvægi verkanna.
Gangan hefst við Hafnarhúsið en boðið verður upp á stutt spjall í lokin.
Sigurlaug er listfræðingur og menningarmiðlari. Hún hefur rannsakað og safnað saman upplýsingum um útilistaverk í eigu og umsjón Reykjavíkurborgar með miðlun í huga.
Sýningarsalir og kaffitería Hafnarhússins er opin til kl. 22 öll fimmtudagskvöld en þar stendur nú yfir sýningin Tilraunamaraþon. Aðgangur að safninu er ókeypis. - vþ