Innlent

180 milljóna króna halli á rekstri skíðasvæðanna á fimm árum

MYND/Vilhelm
Hundrað og áttatíu milljóna króna halli var á rekstri skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli síðustu fimm ár, vegna snjóleysis og fjárfestingar í nýrri stólalyftu.

Rekstur skíðasvæðanna hefur gengið erfiðlega undanfarin ár enda hefur suðvesturhornið ekki beinlínis verið á kafi í snjóalögum. Svæðið í Skálafelli var lokað allan síðastliðinn vetur og hefur ekki verið opnað í vetur.

Þrettán sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum gerðu með sér fimm ára þjónustusamning fyrir fimm árum og rann hann út nú um áramótin. 875 milljónir króna voru settar í reksturinn á þessum fimm árum en þegar dæmið var gert upp kom í ljós 180 milljón króna halli.

Fyrir utan skort á snjó er hann meðal annars rakinn til tafa við afhendingu á nýrri stólalyftu í Bláfjöllum en kaupin á henni og framkvæmdin öll kostaði um 250 milljónir króna.

Öllum starfsmönnum var sagt upp í vor og eins og við sögðum frá í gær þá er nú nægur snjór en það vantar fólkið til að stjórna lyftunum. Síðan fréttin fór í loftið í gærkvöldi hafa hins vegar tveir starfsmenn þegar fengist til starfa.

Reykjanesbær ákvað í gær að draga sig út úr samstarfinu, og að sögn Ragnars Péturssonar, varaformanns í stjórn skíðasvæðanna, bendir allt til þess að fleiri sveitarfélög á Suðurnesjum geri slíkt hið sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×