Körfubolti

KR fer taplaust í jólafrí

Helgi Magnússon var með 17 stig og 10 stoðsendingar í sigri KR fyrir norðan
Helgi Magnússon var með 17 stig og 10 stoðsendingar í sigri KR fyrir norðan Mynd/Daníel

Þrír fyrstu leikirnir í 11. umferð Iceland Express deild karla í körfubolta fóru fram í kvöld.

KR-ingar unnu öruggan sigur á Þór á Akureyri 97-69 og hefur unnið alla ellefu leiki sína til þessa í deildinni.

Cedric Isom skoraði 30 stig og hirti 13 fráköst fyrir Þórsara í kvöld en þeir Jason Dourisseau, Helgi Magnússon (10 stoðs) og Jakob Sigurðarson skoruðu 17 hver fyrir KR og Jón Arnór Stefánsson 16.

Ekki var spennan mikið meiri í Njarðvík þar sem Snæfell kom í heimsókn og vann öruggan 85-55 sigur.

Sigurður Þorvaldsson skoraði 21 stig fyrir Snæfell, Jón Jónsson 20 (10 frák), Slobodan Subasic 17 og Hlynur Bæringsson var með 15 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar.

Hjá Njarðvík var Logi Gunnarsson stigahæstur með 16 stig, Friðrik Stefánsson var með 15 stig og 15 fráköst og Magnús Gunnarsson skoraði 11 stig.

Mesta spennan í kvöld var í Ásgarði þar sem Stjarnan vann góðan sigur á FSu 87-79. Þetta var fyrsti sigur heimamanna í fimmtudagsleik í vetur.

Justin Shouse var atkvæðamestur hjá Stjörnunni með 28 stig, 13 stoðsendingar og 7 fráköst, Jovan Zdravevski skoraði 21 stig og hirti 11 fráköst og Kjartan Kjartansson skoraði 14 stig.

Hjá FSu var Thomas Viglianco með 19 stig og 14 fráköst, Tyler Dunaway með 17 stig og Árni Ragnarsson með 15 stig, 7 stoðsendingar, 6 fráköst og 4 varin skot.

Elleftu og síðustu umferðinni fyrir jólafrí lýkur annað kvöld með þremur leikjum. Skallagrímur-Keflavík, Grindavík-ÍR og Tindastóll-Breiðablik.

Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×