Kristján Sigurleifsson bassaleikari stendur fyrir allsérstæðum tónleikum í hádeginu á morgun. Þá kemur hann fram ásamt kammerkórnum Hljómeyki og flytur þrjú ný verk eftir íslensk kventónskáld.
Tónskáldin sem um ræðir eru þær Hildigunnur Halldórsdóttir, Anna Þorvaldsdóttir og Þóra Marteinsdóttir. Kristján er þó heilinn á bak við tónleikana enda segist hann lengi hafa haft áhuga á því að flytja tónlist fyrir kontrabassa og kór. „Kontrabassinn er þannig hljóðfæri að hljómur hans berst ekkert sérstaklega vel. Það er því lítið vit í að semja og flytja verk fyrir kontrabassa og hljómsveit vegna þess að hin hljóðfærin myndu einfaldlega yfirgnæfa bassann. En ég hef alltaf séð fyrir mér að kór væri mikið hentugri meðleikari fyrir kontrabassa þar sem röddin er svo mjúkt hljóðfæri. Ástæðan fyrir því að ég fékk kventónskáld til þess að semja verkin er svo sú að mér hefur alltaf þótt íslensk kventónskáld semja afar hljómræna og fallega tónlist fyrir kóra; kannski er það vegna þess að þær hafa margar verið í kór sjálfar."
Enn sem komið er hafa aðeins ofangreindu tónskáldin þrjú tekið þátt í verkefninu með Kristjáni, en hann vill gjarnan bæta fleirum við.
„Draumurinn hjá mér er að fara lengra með þessa hugmynd; ég vil endilega fá kventónskáld til að semja tvö til þrjú verk til viðbótar og stefni að því að taka þau svo upp síðar meir. En þetta er langtímaverkefni, þannig að ég veit ekki hvenær af þessu verður."
Á tónleikunum á morgun flytur Hljómeyki að auki eitt verk eftir Ríkharð Örn Pálsson. Tónleikarnir fara fram í tónleikasalnum Hásölum í Hafnarfjarðarkirkju og hefjast kl. 12 á hádegi.