Körfubolti

KR aftur á beinu brautina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Már Magnússon og Jason Dourisseau voru stigahæstir hjá KR í kvöld.
Helgi Már Magnússon og Jason Dourisseau voru stigahæstir hjá KR í kvöld. Mynd/Vilhelm
KR hefndi í kvöld ófaranna frá bikarúrslitaleiknum er liðið lagði Stjörnunna í Iceland Express deild karla, 116-87. KR hafði tapað síðustu tveimur leikjum sínum fyrir leikinn í kvöld.

Fyrst tapaði KR fyrir Grindavík á útivelli í deildinni og svo fyrir Stjörnunni í bikarúrslitaleiknum. Fram að því hafði KR unnið alla sína leiki á tímabilinu.

Tveir aðrir leikir fóru fram í deildinni í kvöld. Skallagrímur vann sinn annan leik á tímabilinu er liðið lagði Tindastól, 85-81. Þá vann Njarðvík sigur á Þór á Akureyri, 84-79.

Eftir nokkuð jafnan fyrsta leikhluta tóku KR-ingar öll völd í leiknum. Staðan í hálfleik var 59-37 fyrir KR og svo 89-54 eftir þriðja leikhluta.

Jason Dourisseau og Helgi Már Magnússon skoruðu sextán stig hvor en Dourisseau tók tíu fráköst þar að auki. JKón Arnór Stefánsson skoraði fjórtán stig en sjö KR-ingar skoruðu meira en tíu stig í leiknum.

Justin Shouse skoraði 20 stig fyrir Stjörnuna og gaf tíu stoðsendingar. Jovan Zdravevski var þó stigahæstur með 30 stig og níu fráköst.

Það var mikið jafnræði með liðunum í Borgarnesi í kvöld en staðan í hálfleik var 41-39, Tindastóli í vil. Staðan var jöfn, 79-79, þegar skammt var til leiksloka en Skallagrímur komst í fjögurra stiga forystu er Sigurður Þórarinsson skoraði svokallaða Alley-oop körfu eftir sendingu frá Landon Quick. Þá voru átta sekúndur til leiksloka og sigurinn tryggður.

S Davíðsson skoraði 26 stig fyrir Skallagrím og þeir Landon Quick, Igor Beljanski og Sigurður Þórarinsson nítján hver. Þráinn Ásbjörnsson skoraði svo tvö stig fyrir Skallagrím og eru þá stig Borgnesinga upptalin.

Hjá Tindastóli var Friðrik Hreinsson stigahæstur með 20 stig og Svavar Atli Birgisson kom næstur með nítján.

Þórsarar voru með þrettán stiga forystu í hálfleik gegn Njarðvík, 50-37, en skoruðu svo ekki nema níu stig í þriðja leikhlutanum. Njarðvík náði þá að jafna metin og tryggja sér nokkuð öruggan sigur í fjórða leikhluta.

Heath Sitton skoraði 25 stig og tók tíu fráköst fyrir Njarðvík. Magnús Þór Gunnarsson kom næstur með 20. Hjá Þór var Konrad Tota stigahæstur með 21 stig og tíu fráköst. Jón Orri Kristjánsson skoraði átján stig og tók einnig tíu fráköst.

KR er sem fyrr á toppi deildarinnar með 34 stig, fjórum meira en Grindavík sem á leik til góða. Njarðvík er í fimmta sæti með 20 stig og Stjarnan í því sjötta með sextán. Tindastóll er í níunda stæi með tólf stig og Skallagrímur á botninum með fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×