Körfubolti

Hamarsmenn þurfa að bíða lengur - töpuðu fyrir Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Hodgson stjórnaði Valsmönnum til sigurs á Hamar í kvöld.
Robert Hodgson stjórnaði Valsmönnum til sigurs á Hamar í kvöld. Mynd/Arnþór

Valur vann topplið 1. deildar karla í körfubolta, Hamar, 82-80, í æsispennandi framlengdum leik í Vodafone-höllinni í kvöld. Valsmenn komu því í veg fyrir að Hvergerðingar tryggðu sér endanlega sætið í Iceland Express deildinni.

Jason Pryor tryggði Hamar framlengingu með þriggja stiga körfu 32 sekúndum fyrir leikslok en honum mistókst síðan að skora sigurkörfu liðsins bæði í lok venjulegs leiktíma sem og í lok framlengingarinnar. Lokaskot hans í framlengingunni endaði á hringum eftir að Steingrímur Gauti Ingólfsson hafði skoraði sigurkörfu Valsmanna.

Ragnar Gylfason skoraði 20 stig fyrir Val og Steingrímur var með 15 stig. Marvin Valdimarsson skoraði 27 stig fyrir Hamar og Jason Pryor var með 23 stig.

Haukar unnu fjórtán stiga sigur á KFÍ á Ísafirði og eiga því enn tölfræðilega möguleika á að vinna deildina en Haukaliðið þarf reyndar að vinna upp 147 nettóstiga forskot Hamars í lokaumferðinni.

Sigur Vals á Hamar þýðir að liðið á enn möguleika á öðru sætinu í deildinni en til þess þarf liðið að vinna Hauka á Ásvöllum í lokaumferðinni. Það verður algjör úrslitaleikur um 2. sætið og þar með heimavallarrrétt út alla úrslitakeppnina.

Hamar mætir nágrönnum sínum úr Þór Þorlákshöfn á heimavelli í lokaumferðinni en Þór tapaði 64-94 á heimavelli fyrir Fjölni í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×