Innlent

Geir tjáir sig ekki um risastyrkina

Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokks, vill ekki tjá sig við fjölmiðla um risaframlög Landsbankans og FL Group.

Hingað til hefur Geir H. Haarde einungis tjáð sig um risaframlög FL Group og Landsbankans í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér skömmu eftir að Stöð 2 fjallaði fyrstu um málið um síðustu mánaðamót.

Þar viðurkennir Geir að hafa tekið á móti styrkjunum fyrir hönd flokksins og segist ennfremur bera einn ábyrgð á málinu.

Geir var á þessum tíma í læknismeðferð í Hollandi og hefur fjölmiðlum ekki gefist tækifæri til að spyrja hann beint um málið.

Geir sat fund utanríkisnefndar Alþingis í morgun en gaf sig á tal við fjölmiðla eftir að fundi lauk.

„Ég gaf út yfirlýsingu um þetta mál og ætla ekki að segja neitt fleira um það," sagði Geir aðspurður hvort það hafi verið mistök að þiggja umrædda styrki frá Landsbankanum og FL Group.

Spurður hvort að hann telji að málið muni skaða Sjálfstæðisflokkinn sagði Geir: „Mín yfirlýsing er tæmandi ég ætla ekki að bæta neinu við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×