Körfubolti

Kominn tími á að lyfta bikar í Höllinni

Fannar Ólafsson barðist eins og ljón í leiknum í dag
Fannar Ólafsson barðist eins og ljón í leiknum í dag Mynd/Vilhelm
"Ég held að við höfum sýnt það hér í kvöld hverjir eru með besta lið á Íslandi," sagði Fannar Ólafsson miðherji KR eftir sigurinn á Grindavík í undanúrslitum Subway bikarsins í dag.

Sigur KR var aldrei í sérstakri hættu eftir frábæran fyrsta fjórðung sem KR vann 26-12 og héldu heimamenn lengst af um eða yfir 10 stiga forystu. Lokatölur urðu 82-70 í DHL-höllinni.

"Við spiluðum hörkuvörn og héldum Grindavík í 70 stigum, Páli Axel í átta stigum og Brenton Birmingham í ellefu. Ég held að sé ekkert annað lið sem getur þetta. Þeir voru ekki að hitta vel og voru kannski yfirspenntir. Við hefðum kannski frekar viljað mæta þeim í úrslitum í Höllinni, en þetta var okkar dagur í dag," sagði rennsveitur og ánægður miðherjinn, sem skoraði 15 stig og hirti 9 fráköst í leiknum.

Stemmingin í vesturbænum var ólýsanleg í dag. Um 1500 manns voru í húsinu sem var troðfullt og hitinn eins og í finnsku sauna. Fannar segir vesturbæinga orðna hungraða eftir að ná stórum titli í Laugardalshöllinni.

"KR hefur ekki lyft bikarnum í Höllinni síðan árið 1990 þannig að það verður lítið mál að gíra okkur upp í það. Það voru 1500 manns í húsinu í dag og ef það segir ekki sína sögu um stjórn KR, umgjörðina og stuðningsmennina - þá veit ég ekki hvað gerir það. Ég er búinn að vera lengi í þessu en ég hef aldrei séð annað eins í undanúrslitaleik í bikar," sagði Fannar ánægður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×