Innlent

Samkomulag um samræmingu úrræða

Við undirritun samkomulagsins.
Við undirritun samkomulagsins. MYND/Pjetur

Undirritað hefur verið samkomulag milli stjórnvalda og allra lánveitenda fasteignaveðlána hér á landi um samræmingu úrræða fyrir einstaklinga og heimili sem eru í greiðsluerfiðleikum vegna fasteignaveðlána.

Með samkomulaginu, sem var undirritað í Þjóðmenningarhúsinu í dag, er leitast við að tryggja að allir lántakendur fasteignaveðlána fái notið sambærilegra greiðsluerfiðleikaúrræða og Íbúðalánasjóður veitir viðskiptavinum sínum.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu segir að samkomulagið sé í samræmi við verkefnaskrá ríkistjórnarinnar um aðgerðir í þágu heimila.

„Samkomulagið er undirritað af Ástu R. Jóhannesdóttur félags- og tryggingamálaráðherra, Gylfa Magnússyni viðskiparáðherra og Guðmundi Bjarnasyni framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs annars vegar og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Hrafni Magnússyni framkvæmdastjóra Landssamtöka lífeyrissjóða, og Hlyni Jónssyni formanni skilanefndar SPRON hins vegar," segir ennfremur.

„Samkomulagið gerir ráð fyrir að Íbúðalánasjóður veiti fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum upplýsingar og ráðgjöf um beitingu þessar greiðsluerfiðleikaúrræða. Þau koma, eftir atvikum, til viðbótar greiðsluerfiðleikaúrræðum sem lántakendur kunna eiga rétt á samkvæmt lögum. Samkomulagið gildir til ársloka árið 2010," segir að lokum en samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×