Heimildir sem fréttastofan telur öruggar fullyrða að Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hafi vitað af tugmilljóna styrkjum FL Group og Landsbanka til Sjálfstæðisflokksins fyrir áramótin 2006 - 2007, en hann hefur ítrekað fullyrt í fjölmiðlum að hann hafi ekki vitað af þessum greiðslum fyrr en Stöð 2 greindi frá þeim á miðvikudag.
Kjartan starfaði við hlið Andra Óttarssonar sem sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri flokksins í gær, frá ráðningu hans í október 2006 til 4. janúar 2007. Allt til þess tíma var Kjartan með prókúru á reikningi flokksins.
Heimildarmenn fréttastofu úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins fullyrða að Kjartan hafi vitað af styrkjunum, en þegar þeirra var aflað voru aðeins örfáir dagar í að ný lög tækju gildi sem bönnuðu svo háa styrki til stjórnmálaflokkanna.
Í Morgunblaðinu í dag er fullyrt að fjárhagur Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma hafi verið afar bágur á þessum tíma.