Innlent

Formaður Framsóknar inni

Samfylking er stærsti flokkurinn í Reykjavíkurkjördæmi norður, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. 33,0 prósent styðja flokkinn í kjördæminu og fengi flokkurinn því þrjá kjördæmakjörna þingmenn. Flokkurinn fékk 29,2 prósent atkvæða í kosningunum 2007.

Vinstri græn bæta við sig rúmum níu prósentustigum og segjast 26,2 prósent kjósa flokkinn nú. Vinstri græn myndu samkvæmt því fá 2 kjördæmakjörna þingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi jafnmarga þingmenn og Vinstri græn, en 17,9 prósent segjast myndu kjósa flokkinn nú. 36,4 prósent kusu flokkinn í Reykjavík norður í alþingiskosningunum 2007.

Formaður Framsóknarflokksins nær kjöri, samkvæmt þessari könnun, þar sem 9,8 prósent styðja flokkinn. Borgarahreyfingin myndi einnig ná manni inn og segjast 8,9 prósent myndu kjósa hreyfinguna. Frjálslyndi flokkurinn og Lýðræðishreyfingin hafa jafnmikið fylgi, 1,9 prósent, en hvorugur flokkur nær kjöri í kjördæminu.

Efnahags-, velferðar-, og menntamál eru mikilvægustu málin fyrir kjósendur í Reykjavík norður, en umhverfis- og samgöngumál hafa minnst vægi. Frá kosningunum 2007 hefur mikilvægi efnahags-, Evrópu-, fiskveiði- og velferðarmála aukist. Mikilvægi skattamála stendur í stað, en mikilvægi annarra mála minnkar.

Hringt var í 600 manns í Reykjavík norður miðvikudaginn 22. apríl og skiptust svarendur jafnt eftir kyni. Spurt var; Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag? Óákveðnir voru spurðir hvaða lista væri líklegast að þeir myndu kjósa. Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir hvort væri líklegra að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða annan flokk. 78,3 prósent tóku afstöðu.

svanborg@frettabladid.is














Fleiri fréttir

Sjá meira


×