Íslenski boltinn

FH-ingar kjöldregnir í seinni hálfleik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Atli Viðar Björnsson.
Atli Viðar Björnsson. Mynd/Daníel

Íslandsmeistarar FH töpuðu illa fyrir FK Aktobe frá Kasakstan í kvöld 0-4 á Kaplakrikavelli eftir að staðan í hálfleik var markalaus.

Þetta var fyrri leikur liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu en staða Íslandsmeistarana er nánast vonlaus fyrir seinni leikinn.

Gestirnir í FK Aktobe fengu betri marktækifæri í fyrri hálfleik en FH-ingar lögðu höfuðáherslu á varnarleikinn og lítið bar á þeim frábæru sóknartilþrifum sem hafa einkennt leik þeirra í sumar.

Snemma í seinni hálfleiknum brutu gestirnir ísinn, þar var að verki Murat Tleshev. Brekkan varð enn brattari skömmu síðar þegar hinn ungi og efnilegi Viktor Örn Guðmundsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik.

Konstantin Golovskoy bætti síðan við öðru marki fyrir Aktobe aðeins þremur mínútum eftir að Viktor fékk rauða spjaldið. Marat Khayrulin bætti þriðja markinu við þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Það var síðan Konstantin Golovskoy sem átti síðasta orðið og skoraði fjórða og síðasta mark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×