Körfubolti

Njarðvík kláraði Stjörnuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Friðrik Stefánsson og félagar í Njarðvík höfðu betur gegn Stjörnunni í kvöld.
Friðrik Stefánsson og félagar í Njarðvík höfðu betur gegn Stjörnunni í kvöld. Mynd/Anton
Þrír leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í kvöld. Stjarnan náði ekki að vinna sinn fjórða leik í röð í kvöld þar sem liðið tapaði fyrir Njarðvík á útivelli, 90-76.

Topplið KR vann enn einn leikinn, í þetta sinn gegn Breiðablik, og er því enn ósigrað eftir fjórtán leiki. KR vann leikinn með, 101-68.

Þá vann Grindavík góðan útisigur á Tindastóli, 94-68, og er því enn fjórum stigum á eftir toppliði KR.

Stjörnumenn byrjuðu betur í kvöld og voru með sex stiga forystu í hálfleik, 41-35, en Njarðvíkingar komust yfir í þriðja leikhluta og gengu frá leiknum í þeim fjórða.

Logi Gunnarsson skoraði 23 stig fyrir Njarðvík og Magnús Þór Gunnarsson sautján. Friðrik Stefánsson skoraði sautján stig og tók tólf fráköst.

Jovan Zdravevski skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna og Justin Shouse 21 auk þess sem hann gaf tíu stoðsendingar. Fannar Freyr Helgason var með tólf stig og tólf fráköst.

KR-ingar áttu aldrei í miklum vandræðum með Blika þó svo að Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon voru ekki með KR vegna meiðsla í kvöld.

Jason Dourisseau var stigahæstur með 27 stig, Jakob Sigurðarson var með sextán og Darri Hilmarsson þrettán.

Hjá Blikum var Nemanja Sovic stigahæstur með 21 stig en hann tók einnig tólf fráköst. Þorsteinn Gunnlaugsson var með fjórtán stig og fjórtán fráköst.

Grindavík hafði sömuleiðis nokkra yfirburði gegn Tindastóli. Staðan í hálfleik var 46-35 og Grindvíkingar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik.

Páll Axel Vilbergsson skoraði nítján stig, Þorleifur Ólafsson sextán, Brenton Birmingham fimmtán og Nick Bradford þrettán.

Hjá Tindastóli var Darrell Flake stigahæstur með sautján stig, Svavar Atli Birgisson var með fimmtán og Helgi Rafn Viggósson tólf.

Tindastóll og Njarðvík eru jöfn með fjórtán stig í 5.-6. sæti en Breiðablik kemur næst með tólf og Stjarnan er með tíu stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×