Innlent

Framsóknarmenn birta ekki bókhald fyrir árið 2006

Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að greina frá því hverjir veittu framlög til flokksins árið 2006. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem flokkurin sendi frá sér fyrir stundu. Hæsti einstaki styrkur sem flokknum hafi verið veitt hafi numið 5 milljónum króna en heildarframlög lögaðila um 30 milljónum króna.

„Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir því á þessum tíma að öll framlög til stjórnmálaflokka yrðu gerð opinber eins og nú er raunin. Af hálfu Framsóknarflokksins er ekkert því til fyrirstöðu að viðkomandi lögaðilar geri grein fyrir framlögum sínum til flokksins. Eðli málsins samkvæmt getur flokkurinn þó ekki haft frumkvæði að því að birta opinberlega frá hverjum framlög komu árið 2006, enda var í flestum tilfellum samkomulag um að farið yrði með styrkveitingarnar sem trúnaðarmál," segir í yfirlýsingu frá flokknum.

Upplýsingar úr samstæðureikningi Framsóknarflokksins fyrir árið 2007 hafa verið birtar opinberlega í samræmi við það sem lög kveði á um. Finna megi þessar upplýsingar, sem og upplýsingar um fjárhagsleg tengsl þingmanna Framsóknarflokksins á heimasíðu flokksins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×