Sport

Einvígi Hafdísar og Jóhönnu heldur áfram í Danmörku um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hafdís Sigurðardóttir hefur verið í frábæru formi í vetur.
Hafdís Sigurðardóttir hefur verið í frábæru formi í vetur. Mynd/Anton

Innanhústímabilinu í frjálsum íþróttum er formlega lokið hjá fullorðnum á Íslandi en sex íslenskir frjálsíþróttamenn eru komnir til Danmerkur þar sem þau keppa á opna danska meistaramótinu í Skive um helgina.

Hafdís Sigurðardóttir úr HSÞ, keppir í flestum greinum á mótinu eða þremur en hún mætir líka Íslendingum í öllum greinum.

Hafdís mætir Blikanum Lindu Björk Lárusdóttur í 60 metra hlaupi, ÍR-ingnum Jóhönnu Ingadóttur í langstökki og Blikanum Arndísi Maríu Einarsdóttur í 200 metra hlaupi.

Hafdís og Jóhanna hafa barist hart um gullverðlaunin í langstökki í vetur og nú er einvígi þeirra komið alla leið til Danmerkur.

Hafdís vann Jóhönnu í langstökki í Bikarkeppninni um síðustu helgi en Jóhanna hafði betur á Meistaramótinu. Hafdís stökk 5,81 metra í bikarnum og 5,82 metra á MÍ en Jóhanna stökk 6,10 metra á MÍ og 5,75 í bikarnum. Það verður því gaman að sjá hvor þeirra stekkur lengra á danska meistaramótinu.

Kristinn Torfason úr FH náði sínu besta langstökki á ferlinum þegar hann stökk 7,45 metra í Bikarkeppninni um síðustu helgi.

Eftir að hann bætti 30 ára met í þrístökki innanhúss á dögunum þá sagðist Kristinn ætla að stefna á Íslandsmetið innanhúss í langstökki. Jón Arnar Magnússon á það met en hann stökk 7,82 metra 5. mars 2000.

Þessi keppa á opna danska meistaramótinu:

Arndís María Einarsdóttir Breiðabliki, keppir í 200m og 400m.

Bjartmar Örnuson UFA, keppir í 400m og 800m.

Hafdís Sigurðardóttir HSÞ, keppir í langstökki, 60m og 200m.

Jóhanna Ingadóttir ÍR, keppir í langstökki og þrístökki.

Kristinn Torfason FH, keppir í langstökki.

Linda Björk Lárusdóttir Breiðabliki, keppir í 60m og 60m grindahlaupi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×