Körfubolti

Valur vann í oddaleik í báðum einvígum bræðranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Ingimundarson hefur haft betur gegn bróður sínum í úrslitakeppninni.
Valur Ingimundarson hefur haft betur gegn bróður sínum í úrslitakeppninni. Mynd/Daníel

Einvígi Keflavíkur og Njarðvíkur í átta liða úrslitum úrslitakeppni Iceland Express deildar karla er ekki bara einvígi erkifjendanna og nágrannanna úr Reykjanesbæ heldur einnig einvígi bræðranna Sigurðar og Vals Ingimundarsona. Þeir eru nú að mætast í Þriðja sinn sem þjálfarar í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla.

Sigurður Ingimundarson er að fara með lið í úrslitakeppni í tólfta sinn en undir hans stjórn hafa lið unnið 58 af 86 leikjum sínum í úrslitakeppni (67,4 prósent) og alls hampað Íslandsmeistaratitlinum fimm sinnum.

Valur Ingimundarson er að fara með lið í úrslitakeppni í tólfta sinn en undir hans stjórn hafa lið unnið 35 af 65 leikjum sínum í úrslitakeppni (53,8 prósent) og alls hampað Íslandsmeistaratitlinum þrisvar sinnum.

Þetta er aðeins í þriðja sinn sem lið þeirra mætast í úrslitakeppni en það gerðist einnig árið 2001 þegar Valur var með Tindastól og árið 2006 þegar Valur var með Skallagrím. Sigurður þjálfaði Keflavík þá alveg eins og nú.

Í báðum einvígum hefur Valur unnið einvígið eftir oddaleik. Tindastóll vann Keflavík 3-2 í undaúrslitum 2001 og Skallagrímur vann Keflavík 3-2 í undanúrslitum 2006. Þetta er aftur á móti í fyrsta sinn sem þeir bræður mætast í einvígi þar sem þarf "bara" að vinna tvo leiki til þess að komast áfram.

Síðasta viðureign bræðranna í oddaleik í undanúrslitunum 2006 er eini leikurinn af tíu innbyrðisviðureignum liða þeirra sem hefur ekki unnist á heimavelli.

Þetta er líka í eina skiptið sem annar bróðurinn hefur unnið tvo leiki í röð á móti hinum í úrslitakeppni. Valur kemur því inn í þetta einvígið með tvo sigra í röð á yngri bróður sínum í úrslitakeppni.

Þróun mála í einvígum bræðranna í úrslitakeppni:

Undanúrslit 2001

Leikur 1 - Tindastóll-Keflavík 109-87

Leikur 2 - Keflavík-Tindstóll 106-90

Leikur 3 - Tindastóll-Keflavík 96-92

Leikur 4 - Keflavík-Tindastóll 67-66

Leikur 5 - Tindastóll-Keflavík 70-65

Tindastóll vann 3-2

Undanúrslit 2006

Leikur 1 - Keflavík-Skallagrímur 97-82

Leikur 2 - Skallagrímur-Keflavík 94-76

Leikur 3 - Keflavík-Skallagrímur 129-79

Leikur 4 - Skallagrímur-Keflavík 94-85

Leikur 5 - Keflavík-Skallagrímur 80-84

Skallagrímur vann 3-2

Samantekt úr 10 innbyrðisleikjum í úrslitakeppni:

6 sigrar hjá liðum Vals

4 sigrar hjá liðum Sigurðar

9 sigrar hjá heimaliðunum

1 sigur hjá útiliðunum








Fleiri fréttir

Sjá meira


×