Körfubolti

Sigurður tryggði Snæfelli sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Þorvaldsson, leikmaður Snæfells.
Sigurður Þorvaldsson, leikmaður Snæfells. Mynd/Stefán

Sigurður Þorvaldsson tryggði Snæfelli nauman sigur á FSu, 68-67, með körfu á lokasekúndu leiksins á Selfossi í kvöld.

ÍR vann Skallagrím í Borgarnesi, 67-59, og Grindavík vann stórsigur á Breiðabliki á heimavelli, 112-60.

Leikur FSu og Snæfells var æsispennandi en staðan í hálfleik var 42-34, Snæfelli í vil. FSu náði hins vegar að koma sér vel inn í leikinn í síðari hálfleik og var með yfirhöndina, 67-65, þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka.

Lucious Wagner minnkaði muninn í eitt stig er hann nýtti annað tveggja vítakasta sem hann fékk og Sigurður tryggði svo sigurinn með sniðskoti á lokasekúndunni sem fyrr segir.

Wagner var stigahæstur Snæfellinga með 20 stig, Slobodan Subasic skoraði sautjánog Sigurður fjórtán. Hjá FSu var Sævar Sigmundsson stigahæstur með 22 stig en hann tók einnig fimmtán fráköst. Vésteinn Sveinsson kom næstur með nítján.

ÍR-ingar höfðu eins stigs forystu gegn Skallagrími í hálfleik, 30-29, í leik liðanna í kvöld. Þeir náðu hins vegar undirtökunum í þriðja leikhluta sem þeir unnu 27-17 og reyndist sá munur of mikill fyrir heimamenn.

Sveinbjörn Claessen skoraði 27 stig fyrir ÍR og Hreggviður Magnússon átján. Hjá Skallagrími var Igor Beljanski stigahæstur með átján stig en Landon Quick kom næstur mðe fjórtán.

Sex leikmenn skoruðu meira en tíu stig fyrir Grindavík í stórsigri liðsins á Breiðabliki. Þorleifur Ólafsson skoraði átján og Guðlaugur Eyjólfsson sautján.Hjá Breiðabliki var Nemanja Sovic stigahæstur með 20 stig.

Grindavík kom sér í efsta sæti deildarinnar með sigrinum en liðið er með 34 stig, rétt eins og KR sem á leik til góða. Grindavík er með betri innbyrðis árangur í viðureignum liðanna.

Snæfell er í þriðja sætinu með 26 stig, ÍR í því sjöunda með sextán, FSu og Breiðablik eru með fjórtán og Skallagrímur í neðsta sætinu með fjögur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×