Körfubolti

Njarðvík hefur gengið vel með Keflavík síðustu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson hjá Keflavík lék með Njarðvík í fyrra.
Hörður Axel Vilhjálmsson hjá Keflavík lék með Njarðvík í fyrra. Mynd/Vilhelm

Það verður stórleikur í Toyota-höllinni í Keflavík í kvöld þegar Njarðvíkingar heimsækja nágranna sína í Keflavík í 20. umferð Iceland Express deildar karla. Leikir liðanna eru jafnan æsispennandi þar sem bæjarstoltið fær menn til að gefa allt sitt í leikinn.

Það munar fjórum stigum og einu sæti á liðunum sem eru í 4. (Keflavík) og 5. sæti (Njarðvík) og eins og staðan er nú gæti þessi leikur verið hugsanleg upphitun fyrir fyrstu umferð úrslitakeppninnar þar sem liðin í 4. og 5. sætinu mætast.

Njarðvík vann fyrri leikinn 77-75 í Ljónagryfjunni í Njarðvík en hann fór fram 30. nóvember. Njarðvíkingar komust mest 31 stigi yfir í leiknum en voru nærri því búnir að missa leikinn frá sér í lokin.

NJarðvíkingum hefur gengið vel gegn nágrönnum sínum undanfarin þrjú tímabil, þeir hafa unnið tvo deildarleiki í röð í Keflavík og alls fjóra af síðustu fimm deildarleikjum liðanna.

Njarðvíkingar eiga líka möguleika á því að vinna báða deildarleikina gegn Keflavík í fjórða sinn á síðasta áratugi en þeir unnu einnig báða leikina 1999-2000, 2002-03 og 2006-07. Keflvíkingar hafa náð "tvennunni" tvisvar á sama tímabili 2001-02 og 2004-05.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×