Körfubolti

Bræðrabylta í Njarðvík

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Valur Ingimundarson og lærisveinar í Njarðvík verða að vinna í kvöld.
Valur Ingimundarson og lærisveinar í Njarðvík verða að vinna í kvöld. Mynd/Anton

Tveir leikir fara fram í úrslitakeppni Iceland Express-deildar karla í kvöld. Á sama tíma fer einnig fram einn leikur hjá konunum.

Stórleikur kvöldsins er í Njarðvík þar sem heimamenn taka á móti grönnum sínum í Keflavík. Keflvíkingar unnu fyrsta leikinn, 96-88, og geta með sigri í kvöld tryggt sér sæti í undanúrslitum.

Í leiknum mætast bræðurnir Valur Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkur, og Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur. Það verður því líklega líflegt á hliðarlínunni, sem og í stúkunni, þegar bræðurnir takast á.

Í hinum leik kvöldsins taka Blikar á móti KR en Vesturbæingar unnu fyrri leikinn auðveldlega, 123-75, og eru líklegir til þess að sópa Blikum út úr mótinu í kvöld.

Hjá stelpunum tekur Hamar á móti Haukum í Hveragerði. Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Haukastúlkur sem geta tryggt sér sæti í úrslitarimmunni gegn KR með sigri í kvöld.

Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×