Innlent

Segja nýtt hrun ekki blasa við

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins telur nýtt hrun vofa yfir Íslandi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins telur nýtt hrun vofa yfir Íslandi.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra kveðst algerlega ósammála þeirri niðurstöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, að hrun blasi við íslenska efnahagskerfinu.

„Niðurstaðan er sú að matið á íslensku bönkunum og stöðu íslenskra fyrirtækja er það að hér sé að hefjast fullkomið kerfishrun. Allsherjarhrun íslensks efnahagslífs," segir Sigmundur Davíð á netsíðu sinni á fimmtudag og vísar í úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og matsfyrirtækisins Oliver Wyman á verðmæti eigna bankanna.

Gylfi segist ekki hafa séð það minnisblað sem Sigmundur Davíð vísi í og kannist ekki heldur við tölur sem hann nefnir. „Það hefur ekkert komið inn á mitt borð sem bendir til þess að afraksturinn út úr þrotabúum gömlu bankanna verði eitthvað miklu minni en ráð var fyrir gert. Það liggur náttúrulega fyrir að það varð gífurlegt tjón, upp á mörg þúsund milljarða, þegar bankarnir hrundu síðastliðið haust en það hefur ekkert gerst síðan þá sem bendir til þess að menn hafi verið alltof bjartsýnir í kjölfarið. Ef eitthvað er þá er myndin aðeins að skýrast og hún er ekki þannig að tjónið sé miklu meira en ráð var fyrir gert," segir Gylfi sem telur útkomuna í heild verða svipaða og áður var talið.

Þá sagði Fjármálaeftirlitið í svari til fjölmiðla í gær að staðhæfingar Sigmundar Davíðs stæðust ekki. Í samtali við Vísi sagði hann hins vegar að stjórnvöld héldu upplýsingum um málið leyndum. - gar








Fleiri fréttir

Sjá meira


×