Innlent

Ríkisstjórnin með öruggan meirihluta

Samfylkingin getur unað sátt við sitt.
Samfylkingin getur unað sátt við sitt.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar talsvert samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Flokkurinn mælist með 24,8 prósenta fylgi nú, en 29,1 prósents fylgi í könnun sem gerð var fyrir tveimur vikum. Munurinn er 4,3 prósent.

Yrðu niðurstöður þingkosninga í samræmi við könnunina næðu sextán frambjóðendur Sjálfstæðisflokks kjöri, en flokkurinn er með 25 þingmenn í dag. Flokkurinn var með 36,6 prósenta fylgi í síðustu kosningum, og mælist því langt undir kjörfylgi.

Vinstri græn bæta við sig fylgi milli kannana. Flokkurinn mælist með 28,1 prósents fylgi nú, en 25,8 prósent sögðust styðja flokkinn fyrir tveimur vikum. Kjörfylgi flokksins var 14,3 prósent. VG fengi miðað við þetta nítján þingmenn kjörna, en er með níu í dag.

Samfylkingin eykur fylgi sitt lítillega, og nýtur samkvæmt könnuninni fylgis 33,3 prósenta landsmanna. Fyrir tveimur vikum mældist fylgi flokksins 31,7 prósent. Samfylkingin er talsvert yfir kjörfylgi, sem var 26,8 prósent. Flokkurinn fengi 22 þingmenn yrðu þetta niðurstöður kosninga en er með 18 í dag.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru samanlagt með 61,4 prósent fylgi og 41 þingmann af 63. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem myndaður var eftir síðustu kosningar var með 63,4 prósenta fylgi og 43 þingmenn.

Framsóknarflokkurinn fengi 9,9 prósent atkvæða yrðu niðurstöður kosninga í samræmi við könnun Fréttablaðsins. Fyrir tveimur vikum mældist fylgi flokksins 7,5 prósent. Flokkurinn er enn undir kjörfylgi, sem var 11,7 prósent. Flokkurinn næði sex mönnum á þing yrðu þetta niðurstöður kosninga, en er með sjö í dag.

Aðrir flokkar myndu ekki ná manni á þing.

Frjálslyndi flokkurinn dalar enn, og mælist með fylgi eins prósents landsmanna. Borgarahreyfingin fengi 1,7 prósent atkvæða samkvæmt könnuninni og Lýðræðishreyfingin fengi eitt prósent atkvæða.

Hringt var í 800 manns þriðjudaginn 7. apríl, og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var; Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga nú? Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir; Hvaða lista er líklegast að þú myndir kjósa? Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir; Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk?

Alls tóku 77,1 prósent afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×