Innlent

Einhliða upptaka ekki rædd

Allt önnur staða Steingrímur sagði Ísland í allt annarri stöðu en löndin í Mið- og Austur-Evrópu.Fréttablaðið/valli
Allt önnur staða Steingrímur sagði Ísland í allt annarri stöðu en löndin í Mið- og Austur-Evrópu.Fréttablaðið/valli

Alþingi Íslensk stjórnvöld hafa ekki rætt um það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að taka einhliða upp evru hér á landi. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi í gær.

Tilefnið var fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar um málið. Sigurður vísaði til skýrslu AGS, sem breska blaðið Financial Times hefur birt upplýsingar úr, þar sem sjóðurinn ráðleggur ESB-ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu sem hafa orðið verst úti í kreppunni að skipta gjaldmiðli sínum út fyrir evru án þess að ganga í myntbandalagið.

Sigurður spurði Steingrím að því hvort viðræður af þessu tagi hefðu átt sér stað við AGS hér og hvort leið sem þessi kæmi til greina fyrir Íslendinga.

Steingrímur svaraði því til að staða umræddra landa væri ósambærileg stöðu Íslands. Þetta væru lönd sem þegar væru aðilar að Evrópusambandinu. Þau hefðu verið að bíða eftir að fá að taka upp evru og mörg hver þegar tengt gjaldmiðil sinn við evruna. Þau hefðu þurft að verja stórum hluta gjaldeyrisvaraforða síns í að verja þá tengingu.

Sigurður Kári sagði athyglisvert að þessi möguleiki, sem mælt væri með hjá öðrum ríkjum, hefði ekki verið ræddur við Íslendinga. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×