Körfubolti

Jón Arnór valinn bestur - Teitur besti þjálfarinn

Jón Arnór Stefánsson var með 23,0 stig að meðaltali á móti fimm bestu liðum deildarinnar í seinni hlutanum.
Jón Arnór Stefánsson var með 23,0 stig að meðaltali á móti fimm bestu liðum deildarinnar í seinni hlutanum. Mynd/Vilhelm

Jón Arnór Stefánsson, leikmaður deildarmeistara KR, var í dag verðlaunaður af Körfuknattleikssambandi Íslands þegar hann var valinn besti leikmaður seinni hluta Iceland Express deildar karla. Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var við sama tækifæri kosinn besti þjálfari seinni hlutans.

Jón Arnór Stefánsson var í lykilhlutverki hjá KR-liðinu sem vann 10 af 11 leikjum sínum í seinni hlutanum og tryggði sér deildarmeistaratitilinn. Jón Arnór var með 19,6 stig, 5,7 stoðsendingar og 2,3 stolna bolta að meðaltali í seinni hlutanum en hann hitti þá úr 44,7 prósent af 47 þriggja stiga skotum sínum.

Þegar Teitur Örlygsson tók við þjálfun Stjörnuliðsins þá snéri hann við gengi liðsins. Stjarnan vann aðeins 2 af 10 leikjum fyrir komu hans en hefur unnið 8 af 12 deildarleikjum sínum með hann á bekknum.

KR á flesta leikmenn í úrvalsliðinu eða tvo því auk Jóns Arnórs var Jakob Örn Sigurðarson einnig valinn í liðið. Þeir tveir voru einnig í úrvalsliði fyrri hlutans en aðrir í liðinu eru Justin Shouse úr Stjörnunni, Brenton Birmingham úr Grindavík og Hlynur Bæringsson úr Snæfelli.

Keflvíkingurinn Jón Norðdal Hafsteinsson var valin dugnaðarforkurinn en þau verðlaun er fyrir þann leikmann sem leggur mikið að mörkum til síns liðs þó að ekki teljist það allt í tölfræðinni. Jón Norðdal hefur að vanda fórnað sér og sínu fyrir Keflavíkurliðið í vetur.

Verðlaun KKÍ fyrir seinni hluta Iceland Express-deildar karla:

Fimm manna úrvalslið:

Justin Shouse, Stjörnunni

Jakob Örn Sigurðarson, KR

Jón Arnór Stefánsson, KR

Brenton Birmingham, Grindavík

Hlynur Bæringsson, Snæfelli

Besti leikmaðurinn: Jón Arnór Stefánsson, KR

Besti þjálfarinn: Teitur Örlygsson, Stjörnunni

Dugnaðarforkurinn: Jón Norðdal Hafsteinsson, Keflavík

Besti dómarinn: Sigmundur Már Herbertsson, Njarðvík












Fleiri fréttir

Sjá meira


×