Körfubolti

Löngu ferðalögin henta ÍR-ingum miklu betur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiríkur Önundarson og félagar í ÍR er mættir á Akureyri.
Eiríkur Önundarson og félagar í ÍR er mættir á Akureyri. Mynd/Arnþór

ÍR-ingar sækja Þórsara heim í 21. umferð Iceland Express deildar karla í körfubolta í kvöld. ÍR-ingar eru sem stendur í 6. sæti deildarinnar með 18 stig og haldi þeir því sæti losna þeir við að mæta KR eða Grindavík í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Það er fróðlegt að skoða gengi ÍR-inga á útivöllum í vetur en Breiðhyltingar hafa unnið 5 af 10 útileikjum sínum á tímabilinu þar af þrjá þá síðustu á móti Njarðvík, Tindastól og Skallagrími.

Þegar betur er að gáð er ekki hægt að sjá annað en löngu ferðlögin henti ÍR-liðinu betur en þau stuttu. ÍR-liðið er nefnilega búið að vinna alla fjóra leiki sína á móti landsbyggðarliðunum Snæfelli, Tindastól, Skallagrími og FSu. Fimmti landsbyggðarleikur liðsins er síðan á móti Þór í Höllinni á Akureyri í kvöld.

Þegar kemur að útileikjum ÍR-liðsins nær heimahögunum er gengið hinsvegar allt annað. ÍR hefur nefnilega aðeins unnið 1 af 6 útileikjum sínum á móti liðum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Útileikir ÍR í Iceland Express deild karla 2008-09

Stuttu ferðalög ÍR í vetur (1 sigur, 5 töp)

DHL-Höll KR-inga - 15 stiga tap (79-94)

Toyota-höllin í Keflavík - 24 stiga tap (69-83)

Smárinn í Kópavogi - 4 stiga tap (71-75)

Röstin í Grindavík - 14 stiga tap (78-92)

Ásgarður í Garðabæ - 3 stiga tap (71-74)

Ljónagryfjan í Njarðvík - 12 stiga sigur (88-76)

Löngu ferðalög ÍR í vetur (4 sigrar, 0 töp)

Stykkishólmur - 5 stiga sigur (91-86)

Iða á Selfossi - 4 stiga sigur (75-71)

Síkið á Sauðárkróki - 1 stigs sigur (118-117)

Fjósið í Borgarnesi - 8 stiga sigur (67-59)












Fleiri fréttir

Sjá meira


×