Agi óskast Ólafur Þ. Stephensen skrifar 28. desember 2010 09:00 Nýleg skýrsla Seðlabankans um peningastefnu eftir höft er ágætur grundvöllur fyrir umræður um þetta mikilvæga mál, sem því miður hefur ekki hlotið nægilega athygli eftir hrun krónunnar og gjaldþrot þeirrar peningastefnu sem fylgt hefur verið frá upphafi áratugarins. Raunar kemur ágætlega fram í skýrslu Seðlabankans að stjórn peningamála hér á landi hefur verið misheppnuð alveg frá upphafi. Frá því að íslenzka krónan hætti að fylgja þeirri dönsku fyrir um 90 árum hefur hún rýrnað um 99,95% að verðgildi miðað við dönsku krónuna. Í skýrslu sinni benti Seðlabankinn á að verði horfið frá gömlu stefnunni um sjálfstæðan, fljótandi gjaldmiðil og verðbólgumarkmið og tekin upp fastgengisstefna, sé ákjósanlegast að tengja gengi krónunnar við evruna. Bankinn geldur varhug við að gera það með einhliða upptöku eða öðrum veikari formum tengingar, en telur að bezti kosturinn sé sá að taka upp evruna með inngöngu í Evrópusambandið og þar með Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Þetta er í raun stefna ríkisstjórnarinnar, sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu, en stefnuna skortir trúverðugleika og slagkraft vegna óeiningar í stjórnarliðinu. Ísland þarf peningastefnu sem til skemmri tíma litið gerir afnám gjaldeyrishaftanna mögulegt og undirbyggir til lengri tíma upptöku evrunnar. Hins vegar þarf líka varaáætlun, sem hægt er að grípa til fari svo að Íslendingar samþykki ekki aðildarsamning við Evrópusambandið þegar þar að kemur. Hver sem niðurstaðan verður um mótun peningastefnu og hvort sem Ísland fær nýjan, stöðugan gjaldmiðil eða missir af því tækifæri, er ljóst að eigi íslenzkt efnahagslíf að verða samkeppnisfært þarf miklu harðari aga í hagstjórninni. Það á ekki sízt við um ríkisfjármálin, sem sjaldnast hafa stutt við peningamálastefnu Seðlabankans sem skyldi. Ákvarðanir um launahækkanir á vinnumarkaði mega heldur ekki verða umfram þá innstæðu sem verðmætasköpun fyrirtækjanna skapar, ef menn geta ekki lengur gripið til þess ráðs að lækka laun almennings með því að fella gengið. Það er rétt af Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem skrifaði grein um peningastefnuna í Fréttablaðið í gær, að vilja efna til víðtæks samráðs og umræðu um mótun nýrrar stefnu. Hann bendir réttilega á í grein sinni að of margir stjórnmálaflokkar hafi til þessa komizt upp með að skila auðu þegar spurt hefur verið hvernig peningastefnu eigi að móta til framtíðar. Enginn hefur sýnt með sannfærandi hætti fram á hvernig íslenzku efnahagslífi á að vera betur borgið í framtíðinni með krónunni en með alþjóðlegum gjaldmiðli. Nú fer að verða tímabært að flokkarnir sýni á spilin. Sömuleiðis hljóta bæði samtök atvinnurekenda og launþega að taka þátt í mótun nýrrar stefnu. Fyrirtækin sem búa við þá óþolandi óvissu sem fylgir litlum, sveiflukenndum gjaldmiðli og launþegar sem oft hafa þurft að sjá á bak kaupmætti sínum í gin gengisfellinga hljóta að vilja marka nýja stefnu sem dugir til framtíðar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Nýleg skýrsla Seðlabankans um peningastefnu eftir höft er ágætur grundvöllur fyrir umræður um þetta mikilvæga mál, sem því miður hefur ekki hlotið nægilega athygli eftir hrun krónunnar og gjaldþrot þeirrar peningastefnu sem fylgt hefur verið frá upphafi áratugarins. Raunar kemur ágætlega fram í skýrslu Seðlabankans að stjórn peningamála hér á landi hefur verið misheppnuð alveg frá upphafi. Frá því að íslenzka krónan hætti að fylgja þeirri dönsku fyrir um 90 árum hefur hún rýrnað um 99,95% að verðgildi miðað við dönsku krónuna. Í skýrslu sinni benti Seðlabankinn á að verði horfið frá gömlu stefnunni um sjálfstæðan, fljótandi gjaldmiðil og verðbólgumarkmið og tekin upp fastgengisstefna, sé ákjósanlegast að tengja gengi krónunnar við evruna. Bankinn geldur varhug við að gera það með einhliða upptöku eða öðrum veikari formum tengingar, en telur að bezti kosturinn sé sá að taka upp evruna með inngöngu í Evrópusambandið og þar með Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Þetta er í raun stefna ríkisstjórnarinnar, sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu, en stefnuna skortir trúverðugleika og slagkraft vegna óeiningar í stjórnarliðinu. Ísland þarf peningastefnu sem til skemmri tíma litið gerir afnám gjaldeyrishaftanna mögulegt og undirbyggir til lengri tíma upptöku evrunnar. Hins vegar þarf líka varaáætlun, sem hægt er að grípa til fari svo að Íslendingar samþykki ekki aðildarsamning við Evrópusambandið þegar þar að kemur. Hver sem niðurstaðan verður um mótun peningastefnu og hvort sem Ísland fær nýjan, stöðugan gjaldmiðil eða missir af því tækifæri, er ljóst að eigi íslenzkt efnahagslíf að verða samkeppnisfært þarf miklu harðari aga í hagstjórninni. Það á ekki sízt við um ríkisfjármálin, sem sjaldnast hafa stutt við peningamálastefnu Seðlabankans sem skyldi. Ákvarðanir um launahækkanir á vinnumarkaði mega heldur ekki verða umfram þá innstæðu sem verðmætasköpun fyrirtækjanna skapar, ef menn geta ekki lengur gripið til þess ráðs að lækka laun almennings með því að fella gengið. Það er rétt af Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem skrifaði grein um peningastefnuna í Fréttablaðið í gær, að vilja efna til víðtæks samráðs og umræðu um mótun nýrrar stefnu. Hann bendir réttilega á í grein sinni að of margir stjórnmálaflokkar hafi til þessa komizt upp með að skila auðu þegar spurt hefur verið hvernig peningastefnu eigi að móta til framtíðar. Enginn hefur sýnt með sannfærandi hætti fram á hvernig íslenzku efnahagslífi á að vera betur borgið í framtíðinni með krónunni en með alþjóðlegum gjaldmiðli. Nú fer að verða tímabært að flokkarnir sýni á spilin. Sömuleiðis hljóta bæði samtök atvinnurekenda og launþega að taka þátt í mótun nýrrar stefnu. Fyrirtækin sem búa við þá óþolandi óvissu sem fylgir litlum, sveiflukenndum gjaldmiðli og launþegar sem oft hafa þurft að sjá á bak kaupmætti sínum í gin gengisfellinga hljóta að vilja marka nýja stefnu sem dugir til framtíðar.