Körfubolti

NBA í nótt: Durant og Oklahoma aftur á beinu brautina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Durant í leiknum í nótt.
Kevin Durant í leiknum í nótt. Mynd/AP

Eftir tvo tapleiki í röð tókst Kevin Durant og félögum í Oklahoma City Thunder aftur að komast á beinu brautina með naumum sigri á Portland í framlengdum leik í NBA-deildinni í nótt, 107-106.

Liðið hafði tapað fyrir Utah og Clippers en í síðarnefnda leiknum gekk ekkert hjá Durant sem hitti úr aðeins sex af 24 skotum sínum utan af velli.

Oklahoma City lenti svo undir í síðari hálfleik í nótt en náði engu að síður góðum spretti í fjórða leikhluta og tryggja sér framlengingu.

Liðið náði svo undirtökunum í framlengingunni og tryggði sér góðan sigur á sterkum útivelli.

Kevin Durant og Russel Westbrook voru báðir með 28 stig og ellefu fráköst í leiknum. LaMarcus Aldridge var með 22 stig fyrir Portland og Brandon Roy nítján.

New York Knicks vann Chicago Bulls, 120-112, þar sem leikmenn fyrrnefnda liðsins fóru á kostum fyrir utan þriggja stiga línunnar. Alls settu þeir niður sextán þrista í leiknum.

Þar fór fremstur í flokki Toney Douglas sem setti persónulegt met með því að skora 30 stig í leiknum, þar af fimm þrista. Raymond Felton var með 20 stig og tíu stoðsendingar og Amare Stoudemirre fjórtán stig og átta fráköst.

Hjá Chicago var Derrick Rose með 24 stig og fjórtán stoðsendingar en hann var látinn hvíla síðustu tíu mínútur leiksins. Kyle Korver var með átján stig og Luol Deng sautján.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×