Körfubolti

LeBron útilokar ekki að snúa aftur til Cleveland

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
LeBron með nýju félögum sínum.
LeBron með nýju félögum sínum.

Það fór allt á annan endann í Cleveland þegar körfuboltastjarnan LeBron James ákvað að söðla um og yfirgefa Cleveland Cavaliers og ganga í raðir Miami Heat.

Þrátt fyrir öll lætin sem hafa orðið í kringum félagaskipti hans útilokar LeBron ekki að snúa aftur heim og leika aftur með Cleveland áður en ferlinum lýkur.

"Ef tækifærið kemur og stuðningsmennirnir vilja fá mig er ekkert útilokað. Það yrði mögnuð saga ef ég færi aftur til Cleveland síðar," segir James.

Hann er í ítarlegu viðtali við GQ-tímaritið þar sem hann talar meðal annars bréf eiganda Cavaliers, Dan Gilbert, sem hann birti kvöldið sem LeBron ákvað að skipta um félag. Þar fór Gilbert ekki fögrum orðum um leikmanninn.

"Ég held að honum hafi alltaf staðið á sama um LeBron," sagði LeBron en hann hatar ekki að tala um sjálfan sig í þriðju persónu.

"Móðir mín sagði alltaf við mig að ég myndi sjá hvernig fólk virkilega er þegar það gefur á bátinn. Nú vitum við nákvæmlega hvaða mann Gilbert hefur að geyma. Þegar ég sá viðbrögðin hans þá leið mér betur með mína ákvörðun."

Leikmaðurinn hefur verið talsvert gagnrýndur á síðustu vikum. Ekki bara fyrir að yfirgefa heimafélag sitt heldur líka fyrir það hvernig hann stóð að ákvörðun sinni. Það var í klukkutíma sjónvarpsþætti.

James segist samt ekki sjá eftir neinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×