Bíó / ***
Inside Job
Leikstjóri: Charles Ferguson
Sýnd á Haustbíódögum Græna ljóssins í Bíó Paradís
Fjármálahrunið 2008 var það mesta frá því að verðbréfamarkaðurinn á Wall Street hrundi 1929. Í heimildarmyndinni Inside Job reynir leikstjórinn Charles Ferguson að kryfja til mergjar hvað fór úrskeiðis í bandaríska fjármálakerfinu og hverjir báru ábyrgð á því að kerfið brann yfir með tilheyrandi snjóboltaáhrifum sem teygðu sig alla leið til Íslands, Grikklands og Írlands. Ferguson notar reyndar Ísland sem smættaða útgáfu á því hvað varð til þess að alþjóðleg lausafjárkreppa lék marga grátt.
Inside Job reynir eftir fremsta megni að gera viðfangsefni sitt spennandi og tekst það á löngum köflum. Hún verður hins vegar stundum fremur langdregin og áhorfandinn gæti misst þráðinn. Hins vegar er það óneitanlega skemmtileg og fróðleg sjón að sjá virta fræðimenn á borð við Fredrick Mishkin engjast um í sætinu sínu yfir einföldum spurningum en á köflum líka skelfilegt að sjá hvernig stjórnmálastéttir og viðskiptablokkir sköruðu eld að sinni köku. Og bara að sinni köku.
Niðurstaða: Inside Job er flott mynd um bandaríska efnahagshrunið sem stundum verður þó aðeins of flókin og langdregin.
