Körfubolti

Magnús á leiðinni heim til að spila með Njarðvík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson er á leiðinni heim og ætlar að spila með Njarðvík í Iceland Express deild karla. Þetta kemur fram á heimasíðu Víkufrétta en á karfan.is er talið líklegt að Magnús verði með Njarðvík á móti Keflavík þegar liðin mætast næsta mánudag.

„Þrátt fyrir gott gengi hjá stórskyttunni þá munu fjölskylduaðstæður hafa spilað inn í að Magnús vill koma heim," segir í fréttinni á Víkurfréttum.

Magnús hefur spilað með Aabyhøj í dönsku úrvalsdeildinni í vetur en liðið er nú í sjötta sæti deildarinnar með 5 sigra og 6 töp. Magnús er með 14,5 stig og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu 11 leikjunum en hann hefur sett niður 35 þrista eða 3,2 að meðaltali í leik.

Magnús spilaði með Njarðvík undanfarin tvö ár en hafði þess á undan spilað allan sinn feril með Keflavík. Njarðvíkingar þurfa vissulega á hjálp hans eins og staðan er í dag því liðið er í 11. sæti Iceland Express deildarinnar með aðeins 2 sigra í fyrstu 6 leikjum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×