Af hverju kusu svo fáir? Ólafur Þ. Stephensen og ritstjóri skrifa 29. nóvember 2010 08:36 Stjórnlagaþingið er merkileg tilraun í lýðræðislegum stjórnarháttum. Það er nýtt fyrir Íslendingum að geta farið framhjá stjórnmálaflokkunum við kosningar og að kjósa einvörðungu persónur, sem bjóða sig fram á eigin forsendum. Það er sömuleiðis nýtt fyrir okkur að kjósa þing sem hefur það eina verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Hún er grundvöllurinn undir alla aðra löggjöf í landinu en hefur þó aldrei verið í forgangi hjá okkar háa Alþingi. Þingmenn hafa í meira en sextíu ár gert margar atrennur að heildarendurskoðun á plagginu en aldrei náð lendingu. Flokks- og kjördæmahagsmunir hafa þvælzt fyrir. Af þessum sökum mátti ætla að Íslendingar tækju kosningunum til stjórnlagaþings fagnandi. Það eru vissulega vonbrigði að meirihluti þjóðarinnar ákvað að sitja heima. Fara þarf heila öld aftur í tímann til að finna dæmi um jafnslaka þátttöku í almennum kosningum. Margar ástæður geta verið fyrir þessu. Mörgum þótti kosningafyrirkomulagið vafalaust flókið; að þurfa að skrifa margar tölur á blað í stað þess að setja einfaldan kross eins og venjulega. Fjöldi frambjóðendanna spilaði áreiðanlega líka inn í. Þótt út af fyrir sig sé jákvætt að á sjötta hundrað manns taldi sig eiga erindi í framboð til stjórnlagaþings, gerði þessi gríðarlegi fjöldi að verkum að fjölmiðlar gátu ekki kynnt frambjóðendur með góðu móti og á milli þeirra varð ekki til nein umræða að ráði, sem gat varpað ljósi á mismunandi áherzlur og ýtt við fólki að taka afstöðu. Það kann sömuleiðis að hafa spilað inn í að þetta eru þriðju kosningarnar á árinu og örari kosningar draga iðulega úr þátttöku. Það er reynslan frá löndum, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðar og hugsanlega þurfum við að búa okkur undir að kjörsókn fari minnkandi, því að það virðist nú nokkuð almenn skoðun, jafnt á Alþingi og meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings, að gefa eigi almenningi í auknum mæli kost á að greiða atkvæði um ýmis mikilvæg mál. Hugsanlegt er að meirihluti þjóðarinnar hafi ekki talið neina þörf á að endurskoða stjórnarskrána. Sé það raunin, kann meirihlutinn þó að hafa gert mistök með því að sitja heima, vegna þess að þá hafa þeir sem vildu breytingar fremur mætt á kjörstað og þá kosið frambjóðendur sem vilja gera miklar breytingar. Hvort það er raunin, kemur í ljós þegar lokið verður við að telja upp úr kjörkössunum. Svo geta einhverjir hafa álitið kosninguna tómt píp og peningaeyðslu og stjórnlagaþing ranga aðferð til að endurskoða stjórnarskrána. Þeir hinir sömu hefðu samt ekki átt að sitja heima, heldur mótmæla með hefðbundnum hætti með því að koma á kjörstað, en skila auðu. Verst af öllu er ef hin litla kosningaþátttaka er til merkis um að meirihluti Íslendinga láti sér einfaldlega standa á sama um stjórnarskrána og stjórnskipunina. Ef svo er, eigum við að hafa áhyggjur af lýðræðisvitund almennings. Þá kann að vera að við viljum aðeins fara á kjörstað þegar það snertir áþreifanlega hagsmuni okkar, en höfum litlar áhyggjur af því hvers konar grundvöllur er lagður að samfélaginu sem við búum í. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Stjórnlagaþingið er merkileg tilraun í lýðræðislegum stjórnarháttum. Það er nýtt fyrir Íslendingum að geta farið framhjá stjórnmálaflokkunum við kosningar og að kjósa einvörðungu persónur, sem bjóða sig fram á eigin forsendum. Það er sömuleiðis nýtt fyrir okkur að kjósa þing sem hefur það eina verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Hún er grundvöllurinn undir alla aðra löggjöf í landinu en hefur þó aldrei verið í forgangi hjá okkar háa Alþingi. Þingmenn hafa í meira en sextíu ár gert margar atrennur að heildarendurskoðun á plagginu en aldrei náð lendingu. Flokks- og kjördæmahagsmunir hafa þvælzt fyrir. Af þessum sökum mátti ætla að Íslendingar tækju kosningunum til stjórnlagaþings fagnandi. Það eru vissulega vonbrigði að meirihluti þjóðarinnar ákvað að sitja heima. Fara þarf heila öld aftur í tímann til að finna dæmi um jafnslaka þátttöku í almennum kosningum. Margar ástæður geta verið fyrir þessu. Mörgum þótti kosningafyrirkomulagið vafalaust flókið; að þurfa að skrifa margar tölur á blað í stað þess að setja einfaldan kross eins og venjulega. Fjöldi frambjóðendanna spilaði áreiðanlega líka inn í. Þótt út af fyrir sig sé jákvætt að á sjötta hundrað manns taldi sig eiga erindi í framboð til stjórnlagaþings, gerði þessi gríðarlegi fjöldi að verkum að fjölmiðlar gátu ekki kynnt frambjóðendur með góðu móti og á milli þeirra varð ekki til nein umræða að ráði, sem gat varpað ljósi á mismunandi áherzlur og ýtt við fólki að taka afstöðu. Það kann sömuleiðis að hafa spilað inn í að þetta eru þriðju kosningarnar á árinu og örari kosningar draga iðulega úr þátttöku. Það er reynslan frá löndum, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðar og hugsanlega þurfum við að búa okkur undir að kjörsókn fari minnkandi, því að það virðist nú nokkuð almenn skoðun, jafnt á Alþingi og meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings, að gefa eigi almenningi í auknum mæli kost á að greiða atkvæði um ýmis mikilvæg mál. Hugsanlegt er að meirihluti þjóðarinnar hafi ekki talið neina þörf á að endurskoða stjórnarskrána. Sé það raunin, kann meirihlutinn þó að hafa gert mistök með því að sitja heima, vegna þess að þá hafa þeir sem vildu breytingar fremur mætt á kjörstað og þá kosið frambjóðendur sem vilja gera miklar breytingar. Hvort það er raunin, kemur í ljós þegar lokið verður við að telja upp úr kjörkössunum. Svo geta einhverjir hafa álitið kosninguna tómt píp og peningaeyðslu og stjórnlagaþing ranga aðferð til að endurskoða stjórnarskrána. Þeir hinir sömu hefðu samt ekki átt að sitja heima, heldur mótmæla með hefðbundnum hætti með því að koma á kjörstað, en skila auðu. Verst af öllu er ef hin litla kosningaþátttaka er til merkis um að meirihluti Íslendinga láti sér einfaldlega standa á sama um stjórnarskrána og stjórnskipunina. Ef svo er, eigum við að hafa áhyggjur af lýðræðisvitund almennings. Þá kann að vera að við viljum aðeins fara á kjörstað þegar það snertir áþreifanlega hagsmuni okkar, en höfum litlar áhyggjur af því hvers konar grundvöllur er lagður að samfélaginu sem við búum í.