Körfubolti

Lakers vann fyrsta leikinn í Boston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Derek Fisher fagnar sigrinum í nótt.
Derek Fisher fagnar sigrinum í nótt. Mynd/AP

LA Lakers hefur tekið forystuna á ný í úrslitaeinvíginu geegn Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta.

Liðin mættust í þriðja leik rimmunnar í nótt og þeim fyrsta í Boston. Lakers vann góðan sjö stiga sigur, 91-84, og þar með 2-1 forystu í úrslitaeinvíginu.

Boston byrjaði betur í leiknum og náði sjö stiga forystu eftir aðeins þrjár mínútur. En í stað þess að gefast einfaldlega upp náði Lakers að koma sér fljótt inn í leikinn á ný og var munurinn orðinn níu stig í lok fyrsta leikhlutans, 26-17.

Lakers missti aldrei forystuna eftir þetta en Boston náði reyndar að minnka muninn í eitt stig í fjórða leikhluta og voru lokamínúturnar nokkuð spennandi.

Það var svo Derek Fisher sem í raun kláraði leikinn þegar tæp mínúta var til leiksloka með því að keyra upp að körfunni, skora og næla sér í víti þar að auki.

Kobe Bryant skoraði 29 stig fyrir Lakers og Fisher var með sextán. Pau Gasol var með þrettán stig og tíu fráköst.

Hjá Boston var Kevin Garnett stigahæstur með 25 stig en Paul Pierce skoraði fimmtán. Glen Davis skoraði tólf stig og Rajon Rondo ellefu.

Ray Allen, sem setti met í síðasta leik með því að setja niður átta þrista úr ellefu tilraunum, skoraði aðeins tvö stig í leiknum í nótt og klúðraði öllum þrettán skotum sínum utan af velli. Hann nýtti þó bæði vítaköstin sem hann fékk.

Næsti leikur fer fram á fimmtudagskvöldið.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×