Körfubolti

Ármann: Fátt skemmtilegra en að raða niður þristum

Jón Júlíus Karlsson í Grindavík skrifar
Úr leik hjá Grindavík.
Úr leik hjá Grindavík.

„Það kemur nú ekki oft fyrir að ég sé stigahæstur,“ sagði Ármann Vilbergsson, skytta úr Grindavík, sem var stigahæstur í liði Grindavíkur í sigri liðsins gegn Keflavík, 79-75, í Röstinni í kvöld. Ármann kom sjóðheitur af bekknum og setti niður fimm þrista í leiknum og hitti úr öllum skotunum.

„Það er fátt skemmtilegra en að raða niður þristunum fyrir framan fullt hús áhorfenda og það er fátt sætara en að vinna Keflavík. Ég fæ alltaf skotleyfi þegar ég kem af bekknum. Það er um að gera að skjóta þangað til að maður klikkar.“

Ármann er yngri bróðir Páls Axels Vilbergssonar sem er körfuboltaunnendum að góðu kunnur. Ármann býst við að geta strítt bróður sínum aðeins í kvöld.

„Ætli þetta sé ekki í fyrsta sinn á ferlinum sem ég skora fleiri stig en hann,“ segir Ármann og hlær.

Staða Grindvíkinga í deildinni vænkast við sigurinn því nú er liðið með 18 stig og aðeins tveimur stigum á eftir Snæfelli þegar deildin er hálfnuð.

„Það hefði verið skelfilegt fyrir okkur að tapa þessum leik. Við erum mjög kátir með þennan sigur og eigum eftir að mæta Snæfelli á heimavelli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×