Nóg komið af dómunum Ólafur Stephensen skrifar 20. október 2010 06:00 Stundum þurfa sprenglærðir dómarar að kveða upp ótal dóma, studda vandaðri lögfræðilegri röksemdafærslu áður en fólki dettur í hug að gera það sem einföld, heilbrigð skynsemi býður. Þetta virðist eiga við um spurninguna hvort Alþingi megi með lögum skylda fólk til að borga félagsgjald í félagi sem það er ekki í og vill ekki vera í, telur jafnvel vinna gegn hagsmunum sínum. Hæstiréttur Íslands hafði ítrekað kveðið upp dóma þess efnis að svokallað iðnaðarmálagjald bryti ekki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Það var gjald sem iðnfyrirtæki greiddu og rann til Samtaka iðnaðarins, jafnvel þótt viðkomandi fyrirtæki væru ekki í samtökunum. Síðastliðið vor komst Mannréttindadómstóll Evrópu hins vegar að þeirri niðurstöðu að gjaldið bryti gegn félagafrelsisákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar með var það úr sögunni. Pétur Blöndal alþingismaður, sem lengi hefur barizt fyrir því að fólk þurfi ekki að borga til félaga sem það vill ekki vera í, spurði þá Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi hvort önnur svipuð gjöld færu ekki sömu leið. Pétur nefndi þar meðal annars búnaðargjald, sem ríkið leggur á bændur en rennur að hluta til Bændasamtakanna og búnaðar- og búgreinasamtaka, og skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til lögboðins stéttarfélags, jafnvel þótt þeir séu ekki í viðkomandi félagi. Forsætisráðherra lofaði þá að skoða málið, en taldi ólíklegt að þessum gjöldum yrði aflétt eins og iðnaðarmálagjaldinu. Nú hefur Hæstiréttur komizt að þeirri niðurstöðu að ólöglegt sé að innheimta af útgerðarmönnum smábáta gjald af aflaverðmæti, sem rennur að hluta til Landssambands smábátaeigenda. Útgerðarfélag, sem vildi ekki vera í sambandinu, lét reyna á þessa gjaldtöku og hafði sitt fram. Rétturinn telur gjaldið brjóta bæði eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði hennar um félagafrelsi. Framkvæmdastjóri Landssambandsins segir ósköp beygður í Fréttablaðinu í dag að félagsskapurinn verði að finna sér nýjar leiðir til tekjuöflunar, jafnvel að leggja á félagsgjald (þá væntanlega á þá sem eru og vilja vera í félaginu)! Merkilegt að engum þar á bæ skuli hafa dottið það í hug fyrr. Er nú ekki hægt að hætta þessum vandræðagangi og komast hjá því að höfða þurfi fleiri dómsmál til að koma því á hreint að ekki megi skylda fólk til að borga til hagsmunasamtaka, sem það er ekki í? Með því má spara lögfræðikostnað, tíma og peninga dómstólanna og forða Alþingi frá enn frekari niðurlægingu. Jóhanna hlýtur að taka á sig rögg og beita sér fyrir því að Alþingi afnemi þessa úreltu gjaldtöku, hvaða nafni sem hún nefnist. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Stundum þurfa sprenglærðir dómarar að kveða upp ótal dóma, studda vandaðri lögfræðilegri röksemdafærslu áður en fólki dettur í hug að gera það sem einföld, heilbrigð skynsemi býður. Þetta virðist eiga við um spurninguna hvort Alþingi megi með lögum skylda fólk til að borga félagsgjald í félagi sem það er ekki í og vill ekki vera í, telur jafnvel vinna gegn hagsmunum sínum. Hæstiréttur Íslands hafði ítrekað kveðið upp dóma þess efnis að svokallað iðnaðarmálagjald bryti ekki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Það var gjald sem iðnfyrirtæki greiddu og rann til Samtaka iðnaðarins, jafnvel þótt viðkomandi fyrirtæki væru ekki í samtökunum. Síðastliðið vor komst Mannréttindadómstóll Evrópu hins vegar að þeirri niðurstöðu að gjaldið bryti gegn félagafrelsisákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar með var það úr sögunni. Pétur Blöndal alþingismaður, sem lengi hefur barizt fyrir því að fólk þurfi ekki að borga til félaga sem það vill ekki vera í, spurði þá Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi hvort önnur svipuð gjöld færu ekki sömu leið. Pétur nefndi þar meðal annars búnaðargjald, sem ríkið leggur á bændur en rennur að hluta til Bændasamtakanna og búnaðar- og búgreinasamtaka, og skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til lögboðins stéttarfélags, jafnvel þótt þeir séu ekki í viðkomandi félagi. Forsætisráðherra lofaði þá að skoða málið, en taldi ólíklegt að þessum gjöldum yrði aflétt eins og iðnaðarmálagjaldinu. Nú hefur Hæstiréttur komizt að þeirri niðurstöðu að ólöglegt sé að innheimta af útgerðarmönnum smábáta gjald af aflaverðmæti, sem rennur að hluta til Landssambands smábátaeigenda. Útgerðarfélag, sem vildi ekki vera í sambandinu, lét reyna á þessa gjaldtöku og hafði sitt fram. Rétturinn telur gjaldið brjóta bæði eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði hennar um félagafrelsi. Framkvæmdastjóri Landssambandsins segir ósköp beygður í Fréttablaðinu í dag að félagsskapurinn verði að finna sér nýjar leiðir til tekjuöflunar, jafnvel að leggja á félagsgjald (þá væntanlega á þá sem eru og vilja vera í félaginu)! Merkilegt að engum þar á bæ skuli hafa dottið það í hug fyrr. Er nú ekki hægt að hætta þessum vandræðagangi og komast hjá því að höfða þurfi fleiri dómsmál til að koma því á hreint að ekki megi skylda fólk til að borga til hagsmunasamtaka, sem það er ekki í? Með því má spara lögfræðikostnað, tíma og peninga dómstólanna og forða Alþingi frá enn frekari niðurlægingu. Jóhanna hlýtur að taka á sig rögg og beita sér fyrir því að Alþingi afnemi þessa úreltu gjaldtöku, hvaða nafni sem hún nefnist.