Körfubolti

Leikur Boston og Miami í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Mynd/AP
NBA-deildin í körfubolta hefst í kvöld með þremur leikjum en flestra augu verða örugglega á leik Boston Celtics og Miami Heat sem fram fer í Boston. Það var engin tilviljun að NBA-deildin stillti upp þessum leik á fyrsta kvöldinu og menn eru búnir að bíða spenntir eftir þessu uppgjöri í langan tíma. Stöð2 Sport mun sýna leikinn í beinni og hefst útsendingin klukkan 11.30.

LeBron James mun spila þarna sinn fyrsta alvöruleik með Miami Heat eftir að hafa verið í sjö ár í Cleveland og Dwyane Wade spilar í fyrsta sinn með þá James og Chris Bosh sér við hlið. Það hefur verið mikið talað um styrk nýja ofurþríeykisins hjá Miami og margir hafa örugglega "móðgað" keppnismennina í Boston sem ætla ekki að gefa frá sér Austrið svo auðveldlega.

Þegar LeBron James stígur inn á völlinn í Boston Garden í nótt verða liðnir 110 dagar frá því að hann tilkynnti heiminnum "Ákvörðunina" í beinni útsendingu.

Shaquille O'Neal mun líka spila sinn fyrsta alvöruleik með Boston Celtics í kvöld en hann hefur á undanförnum árum spilaði bæði með Dwyane Wade og LeBron James. O'Neal vann meðal annars titilinn með wade árið 2006.

Boston-menn fóru alla leið í sjöunda leik í lokaúrslitunum í fyrra og á leiðinni þangað slógu þeir bæði út LeBron og félaga í Cleveland sem og Wade og félaga í Miami.

Boston-liðið gæti líka verið sett upp sem fyrirmynd fyrir nýja ofurþríeykið í Miami því þeir Paul Pierce, Ray Allen og Kevin Garnett urðu NBA-meistarar á sínu fyrsta ári eftir að þeir sameinuðust undir merkjum Boston tímabilið 2007 til 2008.

Leikurinn í nótt hefst klukkan 11.30 að íslenskum tíma og verður eins og áður sagði í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×