Körfubolti

Er nýtt ofur-þríeyki í pípunum í NBA-deildinni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Miami Heat teflir fram mögnuðu þríeyki í NBA-deildinni í körfubolta næstu árin eftir að LeBron James og Chris Bosh ákváðu að ganga til liðs við Dwyane Wade í Miami. Nú gætu þeir fengið samkeppni frá öðru mögulegu þríeyki eftir næsta tímabil.

Leikstjórnandinn Chris Paul hélt athyglisverða ræðu í brúðkaupi Carmelo Anthony í New York um helgina þar sem að hann ýjaði að því að hann og Anthony gætu hugsanlega spilað með Amar'e Stoudemire hjá New York Knicks í framtíðinni.

Samningur Carmelo Anthony við Denver Nuggets rennur út næsta sumar og Chris Paul vill fara frá New Orleans Hornets til liðs sem á meiri möguleika á að berjast um titilinn.

New York Post hafði það eftir gestum brúðkaupsins að Paul hafi sagt í ræðu sinni: „Við munum búa til okkar eigið þríeyki," sagði Paul en hann og Carmelo Anthony léku saman í bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking.

Það þykir lítið kraftaverk að Pat Riley hafi tekist að ná í þá LeBron James og Chris Bosh til Miami sem og að semja aftur við Dwyane Wade en það þarf víst enn stærra kraftaverk til þess að þeir Chris Paul og Carmelo Anthony gætu komið til New York. Það er samt aldrei að vita því enginn bjóst við því að LeBron og Wade myndu spila einhvern tímann saman.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×